Bæjarstarfsmannafélög BSRB samþykkja samninga

Samflot bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB ásamt Kili, FOSS, Starfsmannafélagi Mosfellsbæjar og Starfsmannafélagi Kópavogs hafa samþykkt nýja kjarasamninga sem undirritaðir voru við Samband íslenskra sveitarfélaga í nóvember. Niðurstöður kosninga hjá umræddum félögum voru gerðar opinberar fyrr í dag.

Samflot bæjarstarfsmannafélaga semur fyrir hönd Starfsmannafélags Fjallabyggðar, Starfsmannafélags Fjarðabyggðar, Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi, Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu, Starfsmannafélags Vestmannaeyjabæjar og Starfsmannafélags Húsavíkur.

Af þeim sem greiddu atkvæði hjá Samfloti samþykktu 95% nýja samninginn sem er með gildistíma frá 1. maí 2015 til 31. mars 2019.

Þá greiddu 85,5% þeirra félagsmanna sem tóku þátt í kosningu SfK atkvæði með samþykkt nýja samningsins og hjá St. Mosfellsbæjar samþykktu 77% félagsmanna samninginn. Hjá Kili greiddu 90% þátttakenda í kosningunni atkvæði með samþykkt samningsins. Þá samþykktu 83,5% þátttakenda í kosningunni hjá FOSS (Félag opinberra starfsmanna á Suðurlandi) nýja samninginn.

Áður höfðu Starfsmannafélag Garðabæjar og Starfsmannafélag Hafnarfjarðar samþykkt sína samninga við Sambandið, rétt eins og Starfsmannafélag Reykjavíkur sem hefur jafnframt samþykkt nýja samninga við Reykjavíkurborg.

Þar með hafa öll bæjarstarfsmannafélögin innan BSRB samþykkt nýja kjarasamninga við stærstu viðsemjendur sína.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?