Bæklingur um áreitni á þremur tungumálum

Hægt er að nálgast bæklinginn rafrænt á vef BSRB og prentuð eintök á skrifstofu bandalagsins.

Allt launafólk á rétt á því að njóta skilyrðislausrar verndar gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað. Mikilvægt er að allir starfsmenn þekki sín réttindi. BSRB hefur ásamt öðrum gefið út bækling á íslensku, ensku og pólsku þar sem farið er yfir rétt starfsfólks þegar kemur að kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Að bæklingnum standa ASÍ, BHM, BSRB, KÍ, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa. Íslensk útgáfa bæklingsins var fyrst gefin út á alþjóðlegum baráttudegi kvenna árið 2016. Hann er nú endurútgefinn auk þess sem hann hefur verið þýddur á ensku og pólsku.

Hægt er að sækja bæklinginn rafrænt:

Í bæklingnum er farið yfir skilgreiningu kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og ofbeldis. Þar má finna dæmi um þá hegðun sem fellur undir þessar skilgreiningar og skyldur atvinnurekenda vegna slíkrar hegðunar. Þá er einnig farið yfir úrræði fyrir einstaklinga sem telja sig hafa orðið fyrir slíkri hegðun.

Margvíslegar afleiðingar áreitni og ofbeldis

Afleiðingar kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldis geta verið margvíslegar. Slík hegðun getur haft afleiðingar fyrir einstaklinga, vinnustaði og samfélagið allt, eins og lesa má um í bæklingnum.

Einstaklingar geta meðal annars fundið fyrir verri heilsu, streitu, þunglyndi, niðurlægingu, pirringi og lent í tekjutapi. Á vinnustöðum geta starfsmannavelta og veikindi aukist og framleiðni dregist saman, auk þess sem áhrifin á orðspor vinnustaða geta verið mikil. Í samfélaginu ýtir hegðun af þessu tagi til dæmis undir misrétti, kynbundinn launamun og aukinn útgjöld af ýmsu tagi.

Við hvetjum alla til að kynna sér efni bæklingsins, á íslensku, ensku eða pólsku og benda samstarfsfólki sínu á hann, bæði íslensku útgáfuna og útgáfur á öðrum tungumálum. Hægt er að nálgast prentuð eintök á skrifstofu BSRB, Grettisgötu 89 í Reykjavík.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?