Barátta hinsegin fólks heldur áfram

Regnbogafánarnir eru komnir upp á húsnæði BSRB við Grettisgötuna.

Hinsegin dagar standa nú yfir og ná hámarki með gleðigöngunni um næstu helgi. BSRB styður réttindabaráttu hinsegin fólks hvort sem er á vinnumarkaði eða í lífinu almennt og hvetur alla til að taka þátt.

Íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum gríðarlegar breytingar á þeim 20 árum sem liðin eru frá því Hinsegin dagar voru fyrst haldnir í Reykjavík. Mikilvæg skref hafa verið stigin, á þessum tíma. Eitt það nýjasta eru lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu sem Alþingi samþykkti í fyrra.

Enn er þó mikið verk óunnið, meðal annars þegar kemur að meðvitund atvinnurekenda og samstarfsmanna hinsegin fólks á vinnumarkaði. Á fundinum Hinsegin í vinnunni, sem haldinn var í tengslum við Hinsegin daga í gær, kom fram að þrátt fyrir að þróunin undanfarin ár og áratugi hafi verið jákvæð upplifi um þriðjungur hinsegin fólks óþægilegar og nærgöngular spurningar frá stjórnendum og samstarfsfólki. Þar getur verið spurt um kynlíf, kynfæri og hjúskaparstöðu. Um 15 prósent hinsegin fólks telja sig hafa færri tækifæri á vinnumarkaði en aðra.

Baráttan fyrir því að virðing, fagmennska og starfsánægja séu sjálfsögð réttindi allra á vinnumarkaði heldur áfram. Aðeins með því að tryggja öllu starfsfólki þessi grundvallarréttindi getum við tryggt öfluga og góða almannaþjónustu.

BSRB hvetur alla til að taka þátt í Hinsegin dögum og fjölmenna í gleðigönguna á laugardaginn. Sýnum hinsegin fólki samstöðu og höldum áfram að vinna gegn hvers konar mismunun, bæði á vinnumarkaði og annarsstaðar.

Hægt er að nálgast dagskrá Hinsegin daga hér og kynna sér þá fjölmörgu áhugaverðu viðburði sem hægt er að taka þátt í þetta árið.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?