Barátta launafólks á Norðurlöndum og Eystrasalti

Formaður BSRB í pallborði um réttindi launafólks

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sóttu í vikunni fundi BASTUN, samstarfsvettvang heildarsamtaka launafólks á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum, í Vilníus.

Á fundinum voru réttlát umskipti og réttindi launafólks í brennidepli. Lýðræði er á undanhaldi í heiminum og um 70% jarðarbúa búa við einræði af einhverju tagi. Slík þróun veikir verkalýðshreyfinguna og ógnar réttindum launafólks. Grunnstoðir verkalýðshreyfingarinnar felst í gerð kjarasamninga og réttinum til að leggja niður störf til að knýja fram kröfur sínar. Víða í heiminum er grafið undan þeim réttindum og áform finnsku ríkisstjórnarinnar eru nærtækasta dæmið um. Í pallborðsumræðum um hvernig grundvallarréttindi á vinnumarkaði og lýðræði tengjast var meðal annars fjallað um mikinn mun á styrk verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum, samtal og samráð við stjórnvöld og aðgengi að stefnumótun. Þó aðferðafræði og nálgun í hverju landi fyrir sig kunni að vera sambærileg að miklu leyti þá er staða grundvallarréttinda mjög ólík.

Norræna hreyfingin hefur styrk og almennan stuðning til að rísa upp eins og finnsku stéttarfélögin eru að gera þessa dagana til að mótmæla áformum ríkisstjórnarinnar þar í landi og eins og konur og kvár á Íslandi gerðu til að mótmæla kynbundnum launamun og ofbeldi þegar þau fóru í verkfall 24. október. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að fólk fáist til fjöldamótmæla í Eystrasaltsríkjunum í ljósi þess að saga stjórnmálanna er mjög ólík milli landanna. Fram kom að rannsóknir sýna að samstöðuaðgerðir eru ein skilvirkasta leiðin til að vinna gegn skautun og að auknum réttindum. Þær má útfæra með fjölbreyttum hætti og eftir menningu hvers lands. Meginverkfæri verkalýðshreyfingarinnar í gegnum tíðina hafa falist í samstöðu um hvernig megi byggja saman upp betra samfélag. Sem lið í baráttunni gegn valdaöflum sem vilja veikja réttindi launafólks er því lykilatriði að virkja fólk – það er sameiningarafl í eðli sínu líkt og saga og áfangasigrar verkalýðshreyfingarinnar sýna. Markmiðið á ekki að felast í því að verja réttindi hverju sinni heldur sækja fram og leggja grunn að von um framtíðarsamfélag fyrir öll.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?