Baráttan er ekki búin!

Hinsegin dagar voru settir með hátíðlegri athöfn í hádeginu í dag þar sem Veghúsastígur var málaður til að marka upphaf hátíðarinnar. Yfirskrift Hinsegin daga að þessu sinni er ,,Baráttan er ekki búin."

Fjölbreytta dagskrá hinsegin daga er að finna á hinsegindagar.is en hátíðin nær hámarki með Gleðigöngunni sem gengin verður næstkomandi laugardag, kl 14. ,,Í henni sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína og minna á baráttumál sín,” segir á heimasíðu Hinsegin daga.

Hinsegin dagar hafa innt okkur á baráttu hinsegin fólks fyrir sjálfsögðum mannréttindum og gegn mismunun og fordómum í nær þrjá áratugi. Það hefur mikið áunnist í baráttu hinsegin fólks á síðustu áratugum en undanfarið hefur gætt bakslags þar áróður og hatursorðræða gegn hinsegin fólki hefur færst í aukanna og sýnileiki þeirra í almannarýminu hefur vakið meiri neikvæð viðbrögð.

Full ástæða er til að sýna baráttu hinsegin fólk stuðning, ekki eingöngu með þátttöku í spennandi dagskrá Hinsegin daga, heldur alla daga.

 

BSRB styður réttindabaráttu hinsegin fólks og regnbogafánarnir blakta að sjálfsögðu við hún á BSRB-húsinu við Grettisgötu þessa vikuna.

Við hvetjum öll til að sækja sem flesta viðburði í kringum hátíðina - og fagna fjöbreytileikanum!

 

Mynd: Samtök launafólks taka þátt í Gleðigöngunni 2022

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?