Barist fyrir framtíð allra á 10. þingi EPSU

Hvatt er til þess að ungt fólk verði virkjað í verkalýðsbaráttunni á þingi EPSU.

Þessa vikuna stendur yfir 10. þing Evrópskra heildarsamtaka opinberra starfsmanna, EPSU, í Dublin á Írlandi. Yfirskriftin þess er „Berjumst fyrir framtíð fyrir alla“ og eru megináherslurnar; framtíð opinberrar þjónustu, framtíð starfa á opinberum markaði og framtíð stéttarfélaga í opinbera geirunum.

Þingið, sem haldið er á fimm ára fresti, er vel sótt en þar eru nú samankomnir um 300 fulltrúar frá stéttarfélögum opinberra starfsmanna í Evrópu frá alls 44 löndum. Konur eru nú meirihluti fulltrúa í fyrsta sinn og þá eru einnig fleiri fulltrúar ungu kynslóðarinnar nú en áður.

Ályktun frá Ung-EPSU var samþykkt í gær, en hún byggir að stórum hluta á vinnu ungra félaga í norrænum samtökum opinberra starfsmanna. Í henni var meðal annars hvatt var til þess ungt fólk verði virkjað betur til starfa í baráttu launafólks. Þar segir að verkalýðsbaráttan þurfi á ungu fólki að halda og ungt fólk þurfi á henni að halda sömuleiðis.

Michael D. Higgins, forseti Írlands, flutti afar öfluga og hvetjandi inngangsræðu og fór þar víða. Lýðræðis- og verkalýðsbarátta Íra er öllum kunn og er hún beinlínis áþreifanleg öllum umbúnaði þingsins og í góðu samræmi við efni þess.

Umræður næstu daga munu snúast um jafnréttismál, opinbera þjónustu, tæknivæðingu starfa, lýðræði, félagsleg réttindi launafólks, loftslagsmál, velferð Evrópu og fleira, enda þingfulltrúum fátt óviðkomandi.

Fulltrúi BSRB á þinginu er Sólveig Jónasdóttir frá Sameyki. Hægt er að fylgjast með fréttum og jafnvel beinni útsendingu af þinginu á Facebook-síðu EPSU.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?