Barnabætur skertar mun meira en í Danmörku

Kolbeinn Stefánsson kynnti skýrslu sína á opnum fundi í síðustu viku.

Skerðingar í íslenska barnabótakerfinu eru mun meiri en í danska kerfinu og byrja bætur foreldra tveggja ungra barna að skerðast þó tekjur séu vel undir lágmarkslaunum. Í Danmörku skerðast bæturnar ekki fyrr en tekjur nálgast meðallaun í landinu.

Þetta má lesa úr skýrslunni Barnabætur á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin sem Kolbeinn Stefánsson, doktor í félagsfræði, vann fyrir BSRB.

Í skýrslunni sést að skerðingarmörk barnabóta á Íslandi liggja mjög lágt, sem hefur þær afleiðingar að fjölskyldur með meðaltekjur fá engar barnabætur og jafnvel lágtekjufólk fær mjög skertar bætur.

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan byrja barnabætur á Íslandi að skerðast um leið og foreldrar í hjúskap með tvö börn undir sjö ára aldri eru með tekjur um 35 prósent af meðaltekjum í landinu. Það eru tekjur talsvert undir lágmarkslaunum í landinu, sem eru í dag 317 þúsund krónur.

Bláa línan á myndinni sýnir hversu snemma skerðingar lækka barnabætur þessarar fjölskyldu, og hversu skarpt þær hverfa. Á lóðrétta ásinum má sjá það hlutfall af barnabótum sem fjölskylda með tveimur fyrirvinnum og tveimur börnum undir sjö ára aldri fær. Á lárétta ásinum er hlutfall af meðaltekjum í landinu.

Appelsínugula línan á myndinni sýnir hins vegar hvernig skerðingarnar eru í danska barnabótakerfinu. Sambærilegar fjölskyldur í Danmörku fá fullar barnabætur þar til tekjurnar ná um 90 prósentum af meðaltekjum. Þá fara barnabæturnar að skerðast, en mun hægar en í íslenska kerfinu.

Þetta þýðir að danska kerfið styður við mun stærri hóp foreldra en íslenska kerfið og nær þar með betur því grundvallarmarkmiði að brúa bilið milli þeirra sem minna mega sín og þeirra sem hafa meira á milli handanna.

Mynd 4.2

Skýrsla Kolbeins sýnir svart á hvítu nauðsyn þess að endurskoða íslenska barnabótakerfið frá grunni. Skilgreina þarf með skýrum hætti hver markmið kerfisins eiga að vera og smíða kerfi sem nær þeim markmiðum. BSRB kallar eftir því að ráðist verði í heildarendurskoðun á íslenska barnabótakerfinu án tafar.

Frekari umfjöllun um skýrslu Kolbeins má finna hér.

Hér er hægt að sækja skýrsluna Barnabætur á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?