Barnasáttmálinn 25 ára

Barnasáttmáli SÞ er 25 ára í dag. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna var lagður fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til undirritunar og fullgildingar þann 20. nóvember 1989 og markaði tímamót í baráttunni fyrir réttindum barna, þar sem sáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með réttindi, óháð réttindum fullorðinna.

Í sáttmálanum eru ýmis grundvallarréttindi sem tryggir öllum börnum upp að 18 ára aldri sérstaka vernd og umönnun. Sömuleiðis endurspeglar sáttmálinn ákveðna sýn á hlutverk og stöðu barna og tekur fram að öll börn eigi rétt á því að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Barnasáttmálinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd árið 1992.  Það felur í sér að Ísland er skuldbundið að þjóðarétti til að virða og uppfylla ákvæði sáttmálans. Barnasáttmálinn var síðan lögfestur hér á landi 20. febrúar 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf.

Víðsvegar um heim allan og hér á landi hefur þessum tímamótum verið fagnað í dag. Frekari upplýsingar má nálgast á vef UNICEF á Íslandi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?