Betri líðan, aukin ánægja og minni veikindi í styttingu vinnutíma

Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB flytur erindi um styttingu vinnuvikunnar

VR bauð til opins hádegisverðarfundar um styttingu vinnuvikunnar í gær á Grand Hótel Reykjavík.

Juliet Schor, prófessor við Boston College, og Charlotte Lockhart, einn stofnenda og framkvæmdastjóri 4-Day Week Global fjölluðu um tilraunaverkefni um 4-daga vinnuviku.

Með stofnun 4-Day Week Global var skapaður vettvangur fyrir þau sem aðhyllast hugmyndafræðina um 4 daga vinnuviku. Samtökin hafa meðal annars komið á fót sjóði sem fjármagnar rannsóknir á 4 daga vinnuviku, áhrif þess á vinnumarkaðinn og vellíðan á vinnustað.

Guðmundur D. Haraldsson, stjórnarmaður í Öldu, flutti erindi þar sem skoðaðir voru bæði jákvæðir og neikvæðir þættir við aukna styttingu vinnuvikunnar.

Þá fjallaði Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB, um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar sem hófst 2015 og lauk 2019. Kannanir sýndu jákvæðar niðurstöður sem meðal annars fólust í betri líðan, aukinni ánægju og minni veikindum starfsfólks. Árið 2020 var styttingin fest í kjarasamninga hjá bæði dagvinnu- og vaktavinnufólki.

Í pallborði í lok fundar sátu Guðmundur, Lóa Birna Birgisdóttir, sviðsstjóri mannauðs og starfsumhverfis hjá Reykjavíkurborg, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Fundarstjóri var Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir, varaformaður VR.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?