Betri mönnun – bættur vinnutími

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands og stjórnarmaður í BSRB.

Undanfarinn áratug hefur síendurtekin samfélags- og stjórnmálaumræða verið um mönnunarvanda hjúkrunar. Allt frá árinu 2007 og jafnvel fyrr, hefur margsinnis verið á það bent í fjölmiðlum að skortur sé á starfsfólki sem vinnur við hjúkrun og að slíkur skortur ógni gæðum þjónustunnar og öryggi sjúklinga. Í rúman áratug hafa fagstéttir hjúkrunar ítrekað áréttað þennan vanda sem við nú stöndum frammi fyrir. Þrátt fyrir yfirgripsmikla umræðu og ábendingar um skort á sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum hefur stjórnvöldum enn ekki tekist að manna í störfin til að tryggja öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustunnar.

Undanfarnar vikur hafa helstu fjölmiðlar landsins greint frá óásættanlegri stöðu heilbrigðiskerfisins og bent meðal annars á meintan stjórnendavanda, húsnæðisvanda, skipulagsvanda og fjármögnunarvanda. Sú birtingarmynd sem dregin er upp í fjölmiðlum um vandamál Bráðamóttöku er ósanngjörn, því það er heilbrigðiskerfið í heild sinni sem þarf að virka svo unnt sé að leysa vanda Landspítalans. Þegar starfsemisupplýsingar Landspítalans eru skoðaðar kemur í ljós að fjöldi þeirra sem leita á Bráðamóttökuna hefur verið svipaður á milli ára. Hins vegar hefur fjöldi aldraða sem bíða úrræðis utan Landspítalans farið vaxandi. Hluti vandamálsins liggur því í óleystum mönnunarvanda hjúkrunarstétta. Það er brýnt að styrkja stöðu hjúkrunarheimila og tryggja mönnun fagstétta.

Undnafarna tíu mánuði hefur Sjúkraliðafélag Íslands, sem situr í samninganefnd BSRB, átt í viðræðum við samninganefndi ríkisins um kjaramál. Meginkrafa félagsmanna er að stytta vinnutímann úr 40 klukkustundir á viku í 35 stundir í dagvinnu og að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80% af vinnutíma dagvinnufólks, án launaskerðingar.

Vaktavinna hefur áhrif á heilsufar og lífsgæði

Það er ekki að ástæðulausu að sjúkraliðar vilja betra starfsumhverfi. Um það bil 2.100 starfandi sjúkraliðar eru í Sjúkraliðafélagi Íslands. Um 90 prósent félagsmanna eru í vaktavinnu og er starfshlutfall þeirra að meðaltali um 75 prósent. Reynslan sýnir að í 70 til 80 prósent starfshlutfalli liggja velferðarmörk starfsmanna sem vinna við hjúkrun. Almennt eru sjúkraliðar því í hlutastarfi. Ekki vegna þess að þeir vilja ekki vera í fullu starfi, heldur vegna þess að þeir vinna í vaktavinnu sem hefur íþyngjandi áhrif á heilsufar þeirra og lífsgæði. Sjúkraliðar eru því nauðbeygðir í hlutastarf til að vernda eigið heilsufar. Verðmætamat á vinnuframlagi sjúkraliða sem vinnur á vöktum endurspeglast í viðhorfum til hlutastarfs, en engin getur lifað á hlutalaunum.

Þeir sem þekkja til heilbrigðisþjónustunnar vita að starfsfólk sem vinnur við hjúkrun eru í raun burðarvirki heilbrigðisþjónustunnar og þar gegna sjúkraliðar í lykilhlutverki. Það er því í reynd nauðsynlegt ef tryggja á velferð heilbrigðiskerfisins að mæta kröfum Sjúkraliðafélags Íslands og BSRB um styttri vinnuviku og bæta vinnutíma vaktavinnufólks þannig að 80 prósent vinnuframlag starfsmanna á vöktum verði skilgreint sem fullt starf.

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands og stjórnarmaður í BSRB

Greinin birtist fyrst á Vísi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?