BSRB, BHM og KÍ ganga saman til kjaraviðræðna

Forystufólk BSRB, Kennarasambandsins og BHM að loknum fundi í morgun.
Formenn heildarsamtakanna þriggja hafa undanfarnar vikur fundað óformlega með fulltrúum opinberra launagreiðenda.

Formlegar viðræður eru nú hafnar, en bandalögin þrjú hafa ákveðið að ganga saman til kjaraviðræðna við viðsemjendur sína um ákveðna meginþætti kjarasamninga.

Þéttir fundir eru fram undan og áhersla á að skila kjarabótum til alls félagsfólks. Sérstök áhersla er lögð á að leysa úr jöfnun launa milli markaða, sem er óuppgert frá 2016 þegar samkomulag var gert um breytingu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna.

Í morgun héldu fulltrúar heildarsamtakanna sameiginlegan fund til að stilla saman strengi og veita formönnum þeirra gott veganesti í þær viðræður sem þau leiða fyrir hönd heildarsamtakanna.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?