Bjarg íbúðafélag fær fleiri lóðir í Reykjavík

Önnur af nýju lóðunum sem Bjarg hefur fengið vilyrði fyrir er á mótum Safamýrar og Háaleitisbrautar, gegnt verslunarkjarnanum Miðbæ.

Borgarráð hefur samþykkt að veita Bjargi íbúðafélagi, sem stofnað var af BSRB og ASÍ árið 2016, vilyrði fyrir lóðum undir fjölbýlishús á tveimur stöðum í borginni. Bjarg mun fá lóð á horni Háaleitisbrautar og Safamýrar og við Seljakirkju í Breiðholti.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að vinna við deiliskipulag sé hafin á lóðinni við Safamýrina og vinna við hverfisskipulag Breiðholts sé langt komin. Þá hefur matsnefnd borgarinnar mælt með því við borgarráð að ráðið samþykki að veita Bjargi rúmlega 480 milljóna króna stofnframlag vegna uppbyggingarinnar á reitunum tveimur.

Bjarg er leigufélag í eigu BSRB og ASÍ sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða. Félaginu er ætlað að byggja upp og leigja út íbúðir fyrir tekjulægstu félagsmenn heildarsamtakanna tveggja. Félagið er þegar með um 440 íbúðir í útleigu í Reykjavík, á Akranesi, í Þorlákshöfn og á Akureyri. Félagið er með um 240 íbúðir í byggingu og 374 til viðbótar á undirbúningsstigi.

Hægt er að kynna sér starfsemi Bjargs betur á vef félagsins, þar sem einnig má sækja um íbúðir.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?