Bjarg íbúðafélag þegar úthlutað 100 íbúðum

Fjölskylda Katrínar Einarsdóttur, fyrsta leigjanda Bjargs, var ekki lengi ein því um 100 fjölskyldur til viðbótar hafa nú fengið leigt hjá Bjargi.

Bjarg íbúðafélag hefur nú úthlutað 100 íbúðum í Reykjavík og á Akranesi og er áformað að afhenda 50 íbúðir til viðbótar það sem eftir er árs og verða þá íbúar orðnir á fjórða hundrað. Fyrsti leigjandi félagsins fékk afhenta íbúð við Móaveg í Grafarvogi um miðjan júní og frá þeim tíma hefur leigjendum heldur betur fjölgað.

Framkvæmdir á vegum Bjargs hafa gengið afar vel það sem af er ári. Félagið er nú með um 400 íbúðir í byggingu. Þær eru flestar í Reykjavík; við Móaveg í Grafarvogi, Urðarbrunn og Silfratjörn í Úlfarsárdal, Hallgerðargötu við Kirkjusand og við Hraunbæ. Þá er 32 íbúða fjölbýlishús í byggingu við Guðmannshaga á Akureyri.

Til viðbótar við þetta eru framkvæmdir í undirbúningi við 463 íbúðir til viðbótar. Þær íbúðir verða reistar í Bryggjuhverfinu í Grafarvogi, á Gelgjutanga í Vogabyggð, í Skerjafirði, á Hamranesi í Hafnarfirði, í Þorlákshöfn, i Sandgerði og í nýju Björkuhverfi á Selfossi.

Þá eiga forsvarsmenn Bjargs í viðræðum við önnur sveitarfélög á landinu um byggingu leiguíbúða, en félagið leggur áherslu á að eiga í góðu samstarfi við sveitarfélög og verktaka alls staðar á landinu.

Frekari uppbyggingin er háð veitingu stofnframlaga sem ríki og sveitafélög leggja til verkefna félagsins. Fjármagn til stofnframlaga hefur verið af skornum skammti og umsóknir eru langt umfram fé til úthlutunar. Í kjarasamningum 2015 var lofað að tveir þriðju hlutar stofnframlaga myndi renna til íbúða fyrir tekjulægri einstaklinga og fjölskyldna á vinnumarkaði. Það hefur ekki gengið eftir en vonir standa til að á haustþingi verði sú ráðstöfun staðfest.

Hægt að sækja um íbúð á netinu

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignastofnun stofnuð af BSRB og Alþýðusambandi Íslands. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði, félagsmönnum í BSRB og ASÍ, aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Hægt er að sækja um íbúðir á vef Bjargs. Þar hefur verið sett upp reiknivél þar sem áhugasamir geta kannað hvort þeir falli í þann hóp sem getur leigt íbúðir hjá félaginu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?