Bjarg íbúðafélag þegar úthlutað 66 íbúðum

Íbúðir í fyrsta húsi Bjargs sem rís við Móaveg í Grafarvogi verða afhentar 1. júlí næstkomandi.

Bjarg íbúðafélag hefur úthlutað alls 66 íbúðum og verða þær fyrstu afhentar þann 1. júlí næstkomandi. Alls eru 223 íbúðir í byggingu hjá félaginu í dag og framkvæmdir við 681 íbúð til viðbótar í undirbúningi.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðisfélag sem stofnað var árið 2016 af BSRB og ASÍ til að bregðast við slæmri stöðu á húsnæðismarkaði. Félagið, sem er rekið án hagnaðarmarkmiða, hefur það að markmiði að reisa og leigja út íbúðir á hagstæðu verði til tekjulægstu félagsmanna BSRB og ASÍ.

Nú styttist í að fyrstu íbúðirnar verði afhentar. Framkvæmdir eru í gangi á þremur lóðum félagsins, við Móaveg í Grafarvogi, við Urarbrunn í Úlfarsárdal og í Asparskógum á Akranesi. Afhending fyrstu íbúða við Móaveg og í Asparskógum er áformuð 1. júlí næstkomandi en fyrstu íbúðirnar við Urðarbrunn verða leigðar út frá 1. september.

Alls hefur verið úthlutað 15 íbúðum á Móavegi, 18 í Urðarbrunni og 33 á Akranesi en um 1.300 eru á biðlista eftir íbúð og því mikilvægt að halda áfram uppbyggingu eins hratt og hægt er.

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu vel hefur gengið hjá Bjargi íbúðafélagi að byggja upp leiguíbúðir þar sem fólk með lægri tekjur getur fengið öruggt húsnæði til langs tíma á viðráðanlegu verði,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og stjórnarmaður hjá Bjargi. „Það verður stór áfangi þegar fyrstu íbúarnir flytja inn í sumar en sá mikli fjöldi sem hefur sótt um er skýr áminning um að halda áfram af enn meiri krafti á næstu árum.“

Undirbúningur fyrir framkvæmdir vegna eftirfarandi verkefna er nú í gangi hjá Bjargi íbúðafélagi:

  • Hallgerðargata við Kirkjusand í Reykjavík – 64 íbúðir
  • Leirtjörn í Úlfarársdal í Reykjavík – 66 íbúðir
  • Bryggjuhverfi í Reykjavík – 100 íbúðir
  • Vogabyggð á Gelgjutanga í Reykjavík – 60 íbúðir
  • Hraunbær í Árbænum í Reykjavík – 79 íbúðir
  • Skerjafjörður í Reykjavík – 80 íbúðir
  • Guðmannshaga á Akureyri – 32 íbúðir
  • Sunnan Sandgerðisvegar í Sandgerði – 11 íbúðir
  • Við Sambyggð í Þorlákshöfn – 13 íbúðir
  • Í Björk á Selfossi – 26 íbúðir
  • Hamranes í Hafnarfirði – 150 íbúðir

Þó þarna sé verið að undirbúa framkvæmdir við nærri 700 íbúðir er Bjarg hvergi nærri hætt. Félagið áformar að halda áfram uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf félagsmanna BSRB og ASÍ, framboð lóða og úthlutun stofnframlaga.

Áhugasömum er bent á að skoða vef Bjargs íbúðafélags, þar sem hægt er að skrá sig á biðlista eftir íbúð.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?