Bjarg opnar fyrir umsóknir á fjórum nýjum stöðum

Íbúðir á fjórum nýjum stöðum voru auglýstar lausar til umsóknar.

Bjarg íbúðafélag hefur opnað fyrir umsóknir um íbúðir á fjórum nýjum stöðum; á Hallgerðargötu við Kirkjusand, í Hraunbæ og Silfratjörn i Úlfarsárdal auk Gudmannshaga á Akureyri. Íbúðirnar voru auglýstar lausar til umsóknar um helgina.

Þeir sem hafa áhuga á að leigja íbúðir á þessum stöðum þurfa að senda inn umsókn í gegnum vef Bjargs. Umsókn um íbúð hjá Bjargi fer fram í tveimur skrefum. Fyrst er sótt um að komast á biðlista eftir íbúð, en þegar það er komið þarf að velja hvaða staðsetningu eða staðsetningar er óskað eftir.

Þá er gott fyrir mögulega leigutaka að vita að viðmið um tekjur og eignir leigutaka hækkuðu um áramótin svo stærri hópur getur nú sótt um íbúðir í langtímaleigu hjá Bjargi.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignastofnun stofnuð af BSRB og Alþýðusambandi Íslands. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði, félögum í BSRB og ASÍ, aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Um er að ræða svokölluð leiguheimili að danskri fyrirmynd. Leiðarljós félagsins er að byggja vel hannað, hagkvæmt og endingargott húsnæðihúsnæði. Miðað er við að greiðslubyrði leigu fari ekki yfir 25 prósent af heildartekjum leigjenda, að teknu tilliti til húsnæðisbóta.

Nánari upplýsingar um íbúðakjarna og umsóknarferlið má finna á vef Bjargs. Þar má einnig finna reiknivél þar sem félagsmenn BSRB og ASÍ geta kannað hvort þeir séu innan þeirra tekju- og eignaviðmiða sem gilda um almenn íbúðafélög eins og Bjarg.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?