Borgin úthlutar lóðum til Bjargs íbúðafélags

Skrifað var undir samkomulag um lóðaúthlutun á lóð í Spönginni í Grafarvogi þar sem íbúðir Bjargs munu rísa. Á myndinni eru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags.

Bjarg íbúðafélag, sem stofnað er af BSRB og ASÍ, hefur fengið úthlutað byggingarrétti á þremur stöðum í Reykjavík. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, skrifaði undir samkomulag þar að lútandi ásamt Gylfa Arnbjörnssyni, forseta BSRB, og Degi B. Eggertssyni borgarstjóra á einni lóðanna í dag.

Reykjavíkurborg hefur skuldbundið sig til að úthluta alls 1.000 lóðum til íbúðafélagsins. Á þeim þremur lóðum sem nú hefur verið úthlutað er stefnt á að reisa alls 236 íbúðir. Lóðirnar eru í Spönginni í Grafarvogi, í Úlfarsárdal við Urðarbrunn og á Kirkjusandi við Hallgerðargötu.

Við uppbygginguna verður horft til hugmynda um um félagslega blöndun, íbúalýðræði og hönnun. Miðað er við að Félagsbústaðir Reykjavíkurborgar eignist eða fái til úthlutunar að jafnaði 10-20% íbúða í uppbyggingarverkefnum. Íbúðir á skipulagssvæðunum eru fyrir fjölbreyttan hóp íbúa og eru misstórar.

Leigðar til langs tíma

Íbúðir Bjargs verða svokölluð Leiguheimili og byggja á nýjum húsnæðislögum um almennar íbúðir. Íbúðirnar verða leigðar út til langs tíma til til fólks með lágar- og meðaltekjur. Lögð verður lögð áhersla á hagkvæmni í byggingu, rekstri, endingu og góða nýtingu á rýmum, án þess að það verði á kostnað gæða.

Bjarg íbúðafélag er leigufélag sem BSRB og ASÍ stofnuðu á síðasta ári. Félagið er rekið sem sjálfseignarstofnun án hagnaðarmarkmiða. Því er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að ódýru, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði með því að byggja, kaupa, leigja, stjórna, viðhalda og endurbyggja leiguíbúðir á grundvelli laga nr. 52-2016 um almennar íbúðir.

Nánari upplýsingar um Bjarg íbúðafélag má finna á vef félagsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?