Breiðfylking tók fyrstu skóflustunguna fyrir Bjarg

Stór hópur félaga BSRB og ASÍ mætti í Spöngina í Grafarvogi í dag til að taka fyrstu skóflustungurnar að fyrsta íbúðakjarna Bjargs íbúðafélags.

Stór hópur fólks úr verkalýðshreyfingunni tók í dag fyrstu skóflustunguna að fyrsta íbúðakjarna Bjargs íbúðafélags við Móaveg í Spönginni í Grafarvogi þar sem rísa munu 155 nýjar leiguíbúðir. Reiknað er með að fyrstu íbúðirnar við Móaveg verði afhentar í júní á næsta ári.

Þetta er fyrsta byggingarverkefni Bjargs en félagið áformar umfangsmikla uppbyggingu á leiguíbúðum fyrir tekjulægstu félagsmenn BSRB og ASÍ á næstu árum. Reiknað er með að um 450 íbúðir verði komnar í byggingu hjá félaginu í lok árs þessa árs og rúmlega 1.000 til viðbótar á næstu þremur til fjórum árum.

Þó enn ein lægðin hafi gengið yfir höfuðborgarsvæðið um það leyti sem fyrsta skóflustungan var tekin létu félagar í BSRB og ASÍ það ekki aftra sér og mættu með skóflurnar í Spöngina til að taka fyrstu skóflustungurnar að nýja íbúðakjarnanum. Þar leiddu hópinn Árni Stefán Jónsson, 1. varaformaður BSRB og stjórnarmaður í Bjargi, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og stjórnarformaður Bjargs. Að athöfninni lokinni hóf Ístak framkvæmdir á reitnum enda áformað að vinna hratt og vel.

Byrjað að skrá á biðlista í apríl

Opnað verður fyrir skráningu á biðlista vegna íbúðanna á vefsíðu Bjargs íbúðafélags í apríl næstkomandi. Þau tímamót verða auglýst þannig að ekki eigi að fara fram hjá þeim sem geta hugsað sér að sækja um.

Íbúðir í fyrsta áfanga verða meðal annars í Reykjavík, á Akranesi og Akureyri. Þá á félagið í viðræðum við sveitafélög víðar á landinu. Næstu byggingarframkvæmdir, á eftir Móavegi, hefjast svo strax í apríl við Urðarbrunn í Úlfarsársdal en þar verða byggðar 83 íbúðir.

Í dag fögnum við stórum áfanga þegar framkvæmdir við fyrstu íbúðir Bjargs af mörgum eru að hefjast. Það er gleðilegt að sjá samtakamátt verkalýðshreyfingarinnar virkjaðan til að taka á brýnum vanda á húsnæðismarkaði, vanda sem margir okkar félagar þekkja allt of vel. Við þurfum að halda vel á spöðunum svo uppbyggingin verði hröð og sem flestir fái öruggt þak yfir höfuðið sem fyrst.
- Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB

Bjarg íbúðafélag var stofnað af BSRB og ASÍ og er ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði. Íbúðir félagsins verða því afar mikilvæg viðbót inn á húsnæðismarkaðinn. Hagsýni, skynsemi og gæði eru höfð að leiðarljósi við hönnun íbúðanna til að halda leiguverði lágu og er þar m.a. horft til fermetrafjölda. Íbúðir eru því ekki stórar, um verður að ræða 45 fermetra tveggja herbergja íbúðir, 70 fermetra þriggja herbergja íbúðir, 85 fermetra fjögurra herbergja íbúðir og 100 fermetra fimm herbergja íbúðir.

Rekið án hagnaðarsjónarmiða

Bjarg er húsnæðissjálfseignastofnun sem rekin er án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða leiguheimili að danskri fyrirmynd sem standa munu til boða þeim félagsmönnum aðildarfélaga ASÍ og BSRB sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum, skilgreindum í lögum um almennar íbúðir.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?