Ef ætlunin er að gera Ísland að eftirsóknarverðu landi fyrir ungt fólk verðum við að stíga stærri og hraðari skref í átt til þess að gera íslenskt samfélag fjölskylduvænna. Lenging fæðingarorlofs, óskertar greiðslur upp að 300.000 kr. og hækkun hámarksgreiðslna eru mikilvæg skref að því markmiði, að mati BSRB.
„Við þurfum að spyrja okkur grundvallarspurningar. Hvernig búum við að börnum og barnafjölskyldum á Íslandi? Skoðun BSRB er sú að það sé margt sem þurfi að laga svo svarið við þeirri spurningu verði ásættanlegt,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB. Hún var fulltrúi bandalagsins í starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum, sem skilaði tillögum sínum nýverið til ráðherra.
Stöndum langt að baki hinum Norðurlöndunum
Hún segir Íslendinga standa langt að baki öðrum Norðurlandaþjóðum þegar kemur að stuðningi við barnafjölskyldur. „Það er eitt af megineinkennum norræna velferðarsamfélagsins að styðja við bakið á barnafjölskyldum. Við þurfum að taka okkur á hvað þetta varðar til að standast samanburð við hin Norðurlöndin.“
Það er fagnaðarefni að Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hyggist vinna frumvarp úr tillögum starfshópsins. Verði tillögur hópsins að veruleika bæti það íslenskt samfélag og auki þar með líkurnar á því að ungt fólk kjósi að búa hér. Það væri skref í rétta átt svo að Ísland verði samkeppnishæft um ungt fólk, segir Sonja.
Starfshópurinn leggur til að hámarksgreiðslur foreldris úr Fæðingarorlofssjóði verði 600 þúsund krónur á mánuði, og að tekjur allt að 300 þúsund krónum skerðist ekki, líkt og þær gera nú. Þá er lagt til að fæðingarorlof verði lengt úr níu mánuðum í tólf.
Óþarfi að bíða til 2017
Í skýrslu starfshópsins er miðað við að breyting á greiðslum komi til framkvæmda vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. janúar 2017. BSRB telur ekki þörf á að bíða svo lengi. „Á tímum niðurskurðar voru gerðar breytingar jafnt og þétt, jafnvel á miðju ári, í stað þess að bíða eftir næstu áramótum. Þá hafa hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verið óbreyttar frá ársbyrjun 2014. Það hafa ekki einu sinni verið gerðar breytingar í samræmi við verðlagshækkanir. Við teljum því eðlilegt að þessar breytingar taki gildi strax og lögin hafa verið samþykkt, ekki um næstu áramót,“ segir Sonja.
Eigi íslenskt samfélag að færast nær þeim norrænu velferðarsamfélögum sem við viljum bera okkur saman við verður einnig að huga að því að móta heildstæða stefnu um dagvistun sem tekur við af fæðingarorlofi og að sú þjónusta sé á vegum hins opinbera. Starfshópurinn leggur til að skipuð verði verkefnisstjórn með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga til að fjalla um málið. Markmiðið með vinnu verkefnastjórnarinnar verður að hægt sé að bjóða öllum börnum leikskólavist við tólf mánaða aldur.
Sonja bendir á öll Norðurlönd nema Ísland hafi lögleitt rétt barna til dagvistunar. Í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi eigi börn rétt til leikskóladvalar frá 12 mánaða aldri. Í Danmörku sé fyrirkomulagið með öðrum hætti en þar er boðið upp á dagvistun barna frá 8 mánaða aldri á svonefndum vöggustofum sem eru á vegum hins opinbera.
Jafnréttismál að brúa umönnunarbilið
„Þetta snýst ekki bara um jafnan rétt barna til leikskólavistar heldur er þetta einnig jafnréttismál. Það hefur verið raunin að þegar það þarf að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólavistar lendir það meira á konum en körlum. Umönnunarbilið svonefnda er ein megináskorun þess að jafnrétti á vinnumarkaði náist fram enda er þýðingarlítið að tryggja jafnrétti í fæðingarorlofi ef að því loknu tekur við tímabil þar sem móðirin axlar ábyrgðina í mun ríkari mæli en feður. Það eru almennt mæður sem annast barnið, taka sér lengra frí frá störfum, minnka starfshlutfall eða krefjast aukins sveigjanleika í starfi,“ segir Sonja.
Harkalega var skorið niður í framlögum til Fæðingarorlofssjóðs í fjármálakreppunni sem hófst haustið 2008. Afleiðingarnar voru þær að nýting feðra á fæðingarorlofi minnkaði verulega.
„Nú höfum við tækifæri til að snúa þessari þróun við og móta heildstæða framtíðarstefnu. Í raun var skorið allt of harkalega niður í þessum málaflokki eftir hrunið. Það hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar þar sem feður nýta síður rétt sinn til fæðingarorlofs. Það er löngu tímabært gerðar séu breytingar sem stuðla að því að markmið fæðingarorlofslaga um að tryggja börnum samvistir við báða foreldra og gera konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf, nái fram að ganga. Það er einnig brýnt verkefni að stjórnvöld ábyrgist að öll börn fái notið dagvistunar að loknu fæðingarorlofi og tryggja þannig jafnrétti á vinnumarkaði,“ segir Sonja.
- Skoðun
- Fréttir
- Vinnuréttur
- Vinnuréttur
- Upphaf starfs
- Starfsævin
- Aðbúnaður starfsmanna
- Áminning í starfi
- Fæðingar- og foreldraorlof
- Breytingar á störfum
- Launagreiðslur
- Orlofsréttur
- Persónuvernd starfsmanna
- Réttindi vaktavinnufólks
- Staða og hlutverk trúnaðarmanna
- Veikindaréttur
- Munurinn á embættismönnum og öðrum ríkisstarfsmönnum
- Jafnrétti á vinnumarkaði
- Aðilaskipti að fyrirtækjum
- Lok starfs
- Aðildarfélög
- Um BSRB