Breytingar á opnunartíma skrifstofu BSRB

Skrifstofa BSRB við Grettisgötu lokar hér eftir á hádegi á föstudögum.

Opnunartímar skrifstofu BSRB taka breytingum nú um áramótin. Skrifstofan verður opin milli klukkan 8 og 16 mánudag til fimmtudags og milli klukkan 8 og 12 á föstudögum. Áfram verður svarað í síma milli klukkan 9 og 16 mánudag til fimmtudags og nú frá 9 til 12 á föstudögum.

Athugið að opnunartímar Styrktarsjóðs BSRB verða óbreyttir, frá 9 til 16 alla virka daga.

Breytingar á opnunartíma skrifstofu BSRB koma í kjölfar ítarlegs umbótasamtals á vinnustaðnum í tengslum við styttingu vinnuvikunnar, en ákveðið var að innleiða styttinguna á skrifstofunni á sama tíma og á vinnustöðum félagsmanna nú um áramótin.

Starfsmenn og stjórnendur ákváðu í umbótasamtalinu að stytta vinnuvikuna í 36 stundir og fóru í því samtali vel yfir verkefni og verklag til að tryggja að hægt væri að ná styttingu án þess að skerða þjónustu við aðildarfélög bandalagsins.

Flestir starfsmenn munu taka styttinguna eftir hádegi á föstudögum. Mörg verkefna skrifstofunnar eru unnin í teymisvinnu og því kostur fyrir starfsemina að starfsmenn taki sína styttingu á svipuðum tíma og geti unnið saman að sínum verkefnum á þeim tíma sem skrifstofan er opin. Þá leiddi úttekt á starfseminni í ljós að almennt voru afar fá verkefni sem þurfti að nauðsynlega að sinna eftir hádegi á föstudögum, færri innhringingar auk þess að sum aðildarfélögin sem skrifstofan þjónustar loka fyrr á föstudögum og því þótti hentugast að sem flestir starfsmenn taki sína styttingu þá.

Starfsfólk BSRB hlakkar til að halda áfram að veita aðildarfélögum bandalagsins fyrirtaks þjónustu á nýju ári!


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?