Breytingar á skattkerfinu nýtist þeim tekjulægstu

Meðal þess sem bregðast þarf við er alvarleg staða á húsnæðismarkaði.

Ætli stjórnvöld sér að gera breytingar á tekjuskattkerfinu er mikilvægt að þær breytingar komi helst þeim tekjulægstu hópunum og millitekjuhópunum til góða. Áherslum BSRB varðandi mögulegar breytingar hefur verið komið á framfæri við formann starfshóps sem vinnur að útfærslu á breytingunum.

Eins og fram kemur í stefnu bandalagsins er BSRB fylgjandi þrepaskiptu skattkerfi. Reka á skattkerfið og velferðarkerfi landsins með því hugarfari að fólk greiði inn eftir efnum og taki út eftir þörfum.

Þrátt fyrir að lögð hafi verið þung áhersla á að bæta lægstu launin í kjarasamningum undanfarið hafa kjör tekjulægstu hópanna setið eftir. Skerðingar á barnabótum, vaxtabótum og öðrum mikilvægum kerfum hafa gert það af verkum að staða fjölda fólks er ekki jafn góð og ætla mætti ef aðeins væri rýnt í atvinnutekjur.

BSRB er algerlega andvígt því að lækka skatta þeirra sem best hafa það og telur rétt að svigrúm til að lækka skatta verði notað til að bæta stöðu þeirra sem standa höllum fæti. Það mætti til dæmis gera með því að styrkja á nýjan leika barnabóta- og vaxtabótakerfin. Benda má á að helstu fjárhæðir í vaxtabótakerfinu hafa verið óbreyttar í nærri áratug. Á þeim tíma hefur verðlag hækkað um 22 prósent, laun um 64 prósent og íbúðarverð um 51,5 prósent.

Húsnæðisvandinn brýnn

Miklar hækkanir íbúðaverðs og leiguverðs hafa aukið mjög á ójöfnuð á Íslandi. Fólk sem á eigið húsnæði er nú oft efnaðra en áður enda hefur húsnæðiskostnaður í mörgum tilvikum lækkað hjá þessum hópi vegna lækkunar vaxta og uppgreiðslu lána.

Á meðan hafa þeir sem eru að reyna að kaupa sína fyrstu íbúð setið eftir. Það hafa þeir sem eru á leigumarkaði einnig gert. Hækkun íbúðaverðs gerir það að verkum að enn erfiðara er að eignast eigið húsnæði og miklar hækkanir húsaleigu hafa étið upp launahækkanir. Þessir hópar hafa setið eftir í núverandi uppsveiflu.

Til að bregðast við þessu er nauðsynlegt að halda áfram að efla fasteignafélög, líkt og Bjarg íbúðafélag, sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Einnig þarf að taka næsta skref með því að byggja upp almenn leigufélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni sem geta leigt þeim sem ekki falla undir þau tekjuviðmið sem leigufélög á borð við Bjarg þurfa að halda sig við. Þá þarf að grípa til markvissra aðgerða til að hjálpa fólki að kaupa sína fyrstu íbúð.

Svigrúmið nýtist til að auka jöfnuð

BSRB leggur einnig þunga áherslu á að horft verði til þess við breytingar á skattkerfinu að auka jöfnuð í samfélaginu. Þannig þarf að nýta svigrúm sem kann að vera til staðar til að bæta fæðingarorlofskerfið.

Núverandi fyrirkomulag fæðingarorlofsmála gerir láglaunafjölskyldum erfitt fyrir og ýtir þannig undir ójöfnuð. Í mars 2016 skilaði starfshópur tillögum um framtíðarfyrirkomulag í fæðingarorlofsmálum. Hópurinn lagði til að fæðingarorlof yrði lengt í 12 mánuði og hámarksgreiðslur hækkaðar í 600.000 kr. sem þarf að uppreikna fyrir árið 2018 og eru þá 645.000 kr. Ríkisstjórnin hefur nú lagt fram fjármálaáætlun þar sem stefnt er að hækkun hámarksgreiðslna í 600.000 kr. Mikilvægt er að lengja fæðingarorlofið líka til að vinna á því umönnunarbili sem myndast frá fæðingarorlofi þar til börnin komast í dagvistunarúrræði og til að tryggja jafnari skiptingu mæðra og feðra á fæðingarorlofstöku.

Miðað við núverandi réttindi í fæðingarorlofi taka 26% feðra ekkert fæðingarorlof en þeir sem það gera taka að meðaltali 2,5 mánuði. Mæður taka hins vegar að jafnaði sex mánuði auk þess að axla í langflestum tilvikum ábyrgðina á því að brúa umönnunarbilið. Konur eru því um fjórfalt til fimmfalt lengur frá vinnumarkaði en karlar. Það bitnar á launum og starfsþróunarmöguleikum kvenna á vinnumarkaði.

Einnig gleymist oft að í tillögum starfshópsins var lagt til að fyrstu 300.000 kr. yrðu óskertar en að svo fái foreldrar 80% af launum þar til þakinu er náð. Að lækka um 20% í launum er mjög erfitt fyrir lágtekjuhópa ofan á allan þann kostnað sem fylgir því að eignast barn. Því er mikilvægt að halda því til haga að lægstu greiðslurnar verði hækkaðar þannig að fyrstu 300.000 kr. verði óskertar. Bætt fyrirkomulag fæðingarorlofsmála er bæði mikilvægt fyrir jöfnuð og jafnrétti kynjanna.

Heimild til samsköttunar verði felld niður

BSRB leggur til að heimild til samsköttunar milli hjóna og sambúðarfólks verði felld niður. Það væri gert með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir að byggður sé inn í skattkerfið hvati til þess að tekjulægri makinn, sem í mörgum tilvikum eru konur, vinni minna.

Í kynningu fjármálaráðuneytisins á tillögu til fjármálaáætlunar sem lögð var fram á síðasta ári kom fram að í kringum 93% af þeirri ívilnun sem hlýst af samsköttuninni hækkar ráðstöfunartekjur karla en í einungis 7% tilvika hækka ráðstöfunartekjur kvenna.

Þá þarf einnig að skoða allar breytingar á borð við útgreiðanlegan persónuafslátt í samhengi við jafnrétti kynjanna. Benda má á að þó atvinnuþátttaka kvenna sé há í alþjóðlegum samanburði er samt nærri þriðjungur kvenna í hlutastörfum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?