BSRB-húsið bleikt í október

Öflugir ljóskastarar baða BSRB-húsið með bleikum lit út októbermánuð.

BSRB-húsið við Grettisgötu 89 verður lýst með bleikum lit í október til stuðnings árvekniátaki vegna krabbameins hjá konum. Þá verður merki bandalagsins á vefsíðu þess bleikt út mánuðinn.

Eins og undanfarin 10 ár hefur Krabbameinsfélag Íslands helgað októbermánuði baráttunni gegn krabbameini hjá konum með átakinu Bleika slaufan. Allt söfnunarfé vegna Bleiku slaufunnar rennur til ráðgjafaþjónustu félagsins. Þjónustan styður við þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur þeirra og býður upp á fræðslu og ráðgjöf.

Á vef Bleiku slaufunnar kemur fram að samkvæmt nýrri könnun sem gerð var meðal 1.500 einstaklinga hafi rúmlega helmingur átt náinn ættingja sem greinst hafi með krabbamein. Enn fleiri þekktu einhvern persónulega sem ekki var náinn ættingi. Um fimm prósent höfðu sjálf greinst með sjúkdóminn.

Það er ástæða til að hvetja sem flesta til þess að taka þátt í bleikum október. BSRB hvetur alla til að taka þátt í átaki Krabbameinsfélagi Íslands með því að kaupa Bleiku slaufuna.

Þá er rétt að minna sérstaklega á að föstudaginn 13. október er bleiki dagurinn haldinn hátíðlegur. Þann dag eru allir hvattir til að klæðast bleikum fötum og gera eitthvað skemmtilegt með bleika litinn.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?