BSRB mótmælir inngripi í kjaradeilu FÍF

Stjórn BSRB mótmælir harðlega áformum stjórnvalda um að grípa inn í kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Isavia með lagasetningu. Alþingi hefur verið kallað saman klukkan 15 í dag til að fjalla um frumvörp innanríkisráðherra.

Frumvörpin, sem ekki hafa verið gerð opinber, munu samkvæmt fréttum fjölmiðla setja deiluaðilum frest til að ná samningum til 24. júní. Takist það ekki verður gerðardómur kallaður saman og rétturinn til að semja tekinn af deiluaðilum.

Með þessu er gengið þvert á rétt launafólks til að semja um kaup og kjör, segir í ályktun stjórnar BSRB. Stjórnin telur að mikilvægt sé að deiluaðilar fái það svigrúm sem þeir þurfa til að ná samningum án hótana frá stjórnvöldum um þvinganir.


Ályktun stjórnar má lesa í heild sinni hér að neðan.

Ályktun stjórnar BSRB um inngrip stjórnvalda í kjaradeilu FÍF

Stjórn BSRB mótmælir harðlega áformum stjórnvalda um inngrip í kjaradeilu Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) og Isavia. Með lagasetningunni er deiluaðilum gefinn frestur til að semja til 24. júní. Náist ekki samningar fyrir þann tíma verður gerðardómur kvaddur til.

Með þessu beina inngripi stjórnvalda í frjálsa samninga stéttarfélags er gengið þvert á rétt launafólks til að semja um kaup og kjör við sína viðsemjendur. Stjórn BSRB telur mikilvægt að gefa deiluaðilum svigrúm til að ná samningum án hótana um þvinganir af hálfu stjórnvalda.

Reykjavík, 8. júní 2016

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?