BSRB styrkir landflótta konur og stúlkur

Um fjórir af hverjum fimm sem búa í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu eru konur og börn.

Stjórn BSRB samþykkti í gær á síðasta fundi sínum fyrir jól að styrkja UN Women á Íslandi um hálfa milljón króna. Upphæðinni verður varið í mömmupakka  fyrir nýbakaðar mæður í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu þar sem um 80 þúsund landflótta Sýrlendingar búa.

Í mömmupakkanum eru burðarrúm, ungbarnaföt og ullarsjal sem dreift er til mæðra allra nýbura sem fæðast í búðunum. Um 80 börn fæðast í búðunum í hverri viku og mun styrkurinn frá BSRB duga fyrir mömmupökkum fyrir allar nýjar mæður í búðunum í um 11 daga. Það er því ljóst að fleiri verða að leggjast á árarnar.

BSRB hvetur þá sem eru aflögufærir fyrir jólin til að leggja þessu góða málefni lið með því að kaupa einn eða fleiri mömmupakka á vef UN Women á Íslandi. Hægt er að gefa mömmupakka fyrir hönd vina eða ættingja í stað þess að gefa jólagjafir.

UN Women á Íslandi hefur starfrækt sérstaka griðarstaði fyrir konur á flótta frá stríðinu í Sýrlandi. Á griðarstöðunum eru konur öruggar, fá atvinnutækifæri og menntun auk daggæslu fyrir börn sín. UN Women stendur nú fyrir neyðarsöfnun fyrir konur og stúlkur á flótta frá Sýrlandi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?