BSRB verður stofnaðili að íbúðafélagi ásamt ASÍ

Stjórn BSRB hefur samþykkt að bandalagið verði, ásamt ASÍ, stofnaðili að nýju íbúðafélagi sem ætlað er að leigja út íbúðir til tekjulægri hópa. Ákvörðun stjórnarinnar var kynnt á aðalfundi bandalagsins í gær. Fundurinn skorar á stjórnvöld að ljúka nauðsynlegum lagabreytingum til að hægt sé að stofna íbúðafélagið.

ASÍ hefur þegar kynnt áform sín um stofnun húsnæðisfélags sem hefur það að markmiði að byggja og leigja út íbúðir á sanngjörnu verði fyrir tekjulægri hópa í samfélaginu. Markmiðið er að tryggja þessum hópum aðgang að góðu, öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði.

BSRB verður stofnaðili að félaginu ásamt ASÍ og mun leggja til 20% stofnframlags til nýs félags, alls 2 milljónir króna. Þá mun bandalagið óska eftir því við aðildarfélög sín að þau veiti íbúðafélaginu lán til að koma framkvæmdum af stað.

Aðalfundur fagnaði ákvörðun stjórnar
Fjallað var um málið á aðalfundi BSRB, sem fór fram í gær. Í ályktun sem fundurinn samþykkti var því fagnað að stjórn bandalagsins skuli hafa stigið þetta skref, og að BSRB verði stofnaðili að íbúðafélaginu.

„Öruggt húsnæði, hvort um er að ræða leiguhúsnæði eða séreign, er einn hornsteina almennrar velferðar. Það er því mikilvægt að tryggt sé að allir fái aðgengi að viðunandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum til framtíðar,“ segir í ályktun fundarins.

Fundurinn skoraði jafnframt á stjórnvöld að ljúka við þær lagabreytingar sem nauðsynlegt er að gera svo hægt sé að stofna húsnæðisfélag af þessu tagi. Mikið hefur verið rætt um frumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra um húsnæðismál, en í einu þeirra er lögum breytt með þeim hætti að mögulegt er að láta slík íbúðafélög ganga upp.

Í ályktun aðalfundar BSRB segir að mikill dráttur hafi þegar orðið á afgreiðslu húsnæðisfrumvarpa ráðherrans, og að brýnt sé að Alþingi samþykki frumvörpin strax.


Ályktun aðalfundar BSRB um stofnun íbúðafélags má lesa í heild sinni hér að neðan. Einnig mál lesa ályktunina með því að smella hér.

Ályktun aðalfundar BSRB um stofnun íbúðafélags

Aðalfundur BSRB fagnar því að stjórn bandalagsins skuli hafa ákveðið að BSRB verði stofnaðili að nýju íbúðafélagi ásamt Alþýðusambandi Íslands. Félaginu er ætlað að bjóða tekjulágum hópum íbúðir til leigu á viðráðanlegu verði. Öruggt húsnæði, hvort um er að ræða leiguhúsnæði eða séreign, er einn hornsteina almennrar velferðar. Það er því mikilvægt að tryggt sé að allir fái aðgengi að viðunandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum til framtíðar.

Þá skorar aðalfundurinn á stjórnvöld að ljúka við þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að stofna íbúðafélag af þessu tagi. Þegar hefur orðið mikill dráttur á afgreiðslu húsnæðisfrumvarpa félags- og húsnæðismálaráðherra og brýnt að Alþingi samþykki frumvörpin strax.

Reykjavík, 26. maí 2016

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?