BSRB vill aðgerðir til að leiðrétta laun kvennastétta

BSRB hefur kallað eftir aðgerðum til að útrýma skökku verðmætamati kvennastarfa árum saman.

BSRB kallar eftir því að gripið verði þegar í stað til aðgerða til að leiðrétta laun kvennastétta sem hafa í sögulegu ljósi verið vanmetin, eins og fram kemur í umsögn BSRB um drög að skýrslu og tillögum starfshóps um verðmætamat kvennastarfa og endurmat á virði kvennastarfa.

„Skýrsla starfshóps forsætisráðherra tekur með greinargóðum hætti saman stöðu þekkingar á sviðinu sem byggir undir þær tillögur sem gerðar eru. Reynslan sýnir að aðgerðarleysi leiðir til þess að ekkert breytist. Þess vegna þarf að grípa þegar í stað til aðgerða til að leiðrétta laun kvennastétta sem hafa í sögulegu ljósi verið vanmetin,“ segir meðal annars í umsögninni.

Þar er kallað eftir því að stjórnvöld hafi frumkvæði að því að innleiða skýra stefnu og þróa verkfæri í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, líkt og starfshópurinn leggur til. Þá leggur BSRB áherslu á það í umsögninni að eftirfylgni og framfylgd tillagnanna verði í forgangi hjá forsætisráðuneytinu og skrifstofu jafnréttismála.

Starfshópur um endurmat á störfum kvenna var skipaður í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem undirrituð var við gerð kjarasamninga aðildarfélaga BSRB við ríki og sveitarfélög vorið 2020. Starfshópurinn skilaði drögum að skýrslu í samráðsgátt stjórnvalda þann 7. september síðastliðinn.

Í umsögn BSRB um skýrsludrögin kemur fram að um tveir þriðju hlutar félagsmanna aðildarfélaga BSRB séu konur og að fjölmargar þeirra starfi innan starfsstétta þar sem konur séu í meirihluta, svonefndum kvennastéttum. Þar má til dæmis nefna sjúkraliða, félagsliða, skólaliða, leikskólaliða, leiðbeinendur á leikskólum, fólk sem starfar við aðstoðar- og ritarastörf á stofnunum og læknastofum, matráða og starfsfólk í matseld og umönnun á hjúkrunarheimilum.

„BSRB fagnar útgáfu skýrslunnar og tillögum til aðgerða enda hefur bandalagið til margra ára lagt áherslu á að gripið verði til aðgerða til að útrýma skökku verðmætamati kvennastarfa. Ástæða þess að mikilvægt er að horfa sérstaklega til kvennastétta leiðir af því að kynskiptur vinnumarkaður er meginástæða kynbundins launamunar, konum í óhag. Með því að setja kastljósið á aðgerðir þar til að leiðrétta vanmat á störfum kvennastétta má taka stærsta mögulega skrefið í áttina að endanlegu launajafnrétti kynjanna,“ segir meðal annars í umsögn BSRB, sem send hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda.

Hægt er að lesa umsögn BSRB í heild sinni hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?