BSRB vill koma að vinnu við velsældarmarkmið

Forsætisráðuneytið hefur brugðist vel við erindi BSRB og boðað heildarsamtök launafólks á fund vegna málsins.

BSRB hefur óskað eftir aðkomu samtaka launafólks að vinnu sem stjórnvöld hafa sett af stað við að þróa mælikvarða fyrir hagsæld og lífsgæði með það að markmiði að móta stefnu fyrir aukna velsæld.

Í erindi til forsætisráðherra segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, að margir af þeir mælikvörðum sem fjallað hafi verið um á kynningu stjórnvalda nýverið endurspegli áherslur BSRB og annarra heildarsamtaka launafólks á félagslegan stöðugleika.

„Það er mjög mikilvægt að skapa sem víðtækasta sátt um velsældaráætlun stjórnvalda og til að svo verði teljum við mikilvægt að samtök launafólks fái tækifæri til hafa áhrif á þá mælikvarða sem lagðir verða til grundvallar og taka þátt í stefnumótuninni,“ sagði Sonja meðal annars í erindi sínu til forsætisráðherra, sem sent var síðastliðinn föstudag.

Forsætisráðuneytið hefur þegar svarað erindinu og boðað fulltrúa BSRB og annarra heildarsamtaka launafólks á fund vegna málsins.

Hamingja sem mælikvarði á hagsæld

Í þeirri vinnu sem stjórnvöld hafa sett af stað er unnið út frá þeirri hugmynd að hamingja og velsæld séu ekki síður mikilvægir mælikvarðar en landsframleiðsla fyrir almenn lífsgæði innan ríkja. Þessi sjónarmið njóta vaxandi viðurkenningar og nú á síðustu árum hafa æ fleiri ríki og alþjóðlegar stofnanir verið að þróa aðferðir í stefnumótun til að stuðla að öflugri og sjálfbærari samfélögum með aukinni áherslu á mælingar á almennri velsæld.

Forsætisráðherra hefur þegar kynnt alls 39 mælikvarða á sviði félagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta sem nefnd á hennar vegum hefur unnið að og fjallað er um í skýrslu sem hefur nú verið gerð opinber. Nefndin hvetur til þess að bætt verði úr skorti á tölulegum gögnum um félagsauð og umhverfismál og að stjórnvöld ákveði með hvaða hætti mælikvarðarnir verði nýttir við stefnumótun.

Endurspeglar áherslu á félagslegan stöðugleika

Margir af mælikvörðunum sem nefndin hefur valið endurspegla áherslumál BSRB um félagslegan stöðugleika. Sem dæmi má nefna mælikvarða eins og símenntun, lengd vinnuviku, óreglulegur vinnutími, starfsánægja, neitaði sér um læknisþjónustu, kaupmáttur, viðvarandi lágar tekjur og verulega íþyngjandi byrði húsnæðiskostnaðar.

BSRB telur nauðsynlegt að samtök launafólks taki þátt í að þróa mælikvarðana frekar og komi að mótun velsældaráætlunar sem samhæfi fjárveitingar fjárlaga við hagsældaráherslur á sviði félags-, umhverfis- og efnahagsmála.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?