Dagur gegn einelti

Dagurinn 8. nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu. Dagurinn verður að þessu sinni haldinn hátíðlegur í fjórða sinn föstudaginn 7. nóvember til að skólar geti nýtt virkan skóladag til að huga að þessu mikilvæga málefni. Markmið með deginum er að vekja sérstaka athygli á málefninu og hversu alvarlegt einelti er. Í tengslum við daginn 2011 undirrituðu fulltrúar stjórnvalda, sveitarfélaga, félagasamtaka og opinberra stofnana þjóðarsáttmála gegn einelti og lýstu þar með vilja sínum til að leggja þessu málefni lið. Sáttmálinn er því grunnur að frekari vinnu þeirra sem undirrituðu hann í Höfða 2011.

Stjórnvöld hvetja skóla og aðrar stofnanir, sem og landsmenn alla, til að nýta 7. nóvember næstkomandi til að hugleiða hvernig hægt er að stuðla að jákvæðara samfélagi fyrir alla og beina athyglinni að því að koma í veg fyrir og uppræta það þjóðarböl sem einelti er. Í fyrra var sjónum sérstaklega beint að framhaldsskólum en í ár beinum við sjónum okkar sérstaklega að grunnskólum.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti ásamt Reykjavíkurborg mun standa fyrir dagskrá í Laugalækjarskóla í Reykjavík milli kl. 13:30 og 15:30 og eru aðilar skólasamfélagsins í grunnskólum velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Skólasamfélagið, vinnustaðir og samfélagið í heild eru hvött til þess að taka höndum saman og helga 7. nóvember í ár baráttunni gegn einelti með einhverjum hætti. 

Sýnum samstöðu í verki og höfnum einelti.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?