Dómur í máli félagsmanns BSRB

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í mars í fyrra um að Seltjarnarnesbær skuli greiða félagsmanni BSRB tvær og hálfa milljón króna auk vaxta í skaðabætur vegna ólögmætrar niðurlagningar á starfi.

Konan starfaði sem deildarstjóri launadeildar Seltjarnarnesbæjar þegar henni var tilkynnt með bréfi í september 2011 að starf hennar yrði lagt niður, sama dag og hún fékk bréfið í hendur. Þar var þess krafist að hún hætti störfum samdægurs. Þetta var sagt vegna endurskipulagningar á fjárhags-og stjórnsýslusviði sveitarfélagsins.

Á sama tíma og ákvörðun var tekin um niðurlagningu starfs deildarstjóra launadeildar var ákveðið að stofna til nýs starfs á sviði starfsmannamála. Sækjendur málsins töldu því markmið stjórnenda sveitarfélagsins hafa einfaldlega verið að segja viðkomandi starfsmanni upp störfum og hafi uppsögnin verið dulbúin sem niðurlagning starfs.

Bærinn gat þó ekki að mati héraðsdóms og Hæstaréttar fært rök fyrir því hversvegna varð að leggja starf konunnar niður í þeim breytingum. Í dómi Hæstaréttar segir að uppsögn konunnar hafi borið brátt að og var henni í beinu framhaldi af tilkynningu um starfslokin fyrirvaralaust og án nokkurs tilefnis gert að tæma skrifborð sitt og yfirgefa vinnustaðinn. Var þessi aðferð mjög meiðandi fyrir stefndu og til þess fallin að líta út eins og tilefni hefði verið verið til að víkja henni fyrirvaralaust úr starfi.

Komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að Seltjarnarneskaupstaðar hefði sýnt af sér ólögmæta háttsemi með þessu og nú hefur Hæstiréttur staðfest þann úrskurð.

Seltjarnarnesbæ var auk skaðabótanna gert að greiða konunni málsvarnarlaun fyrir hæstarétti.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?