Einkarekstur sloppið við niðurskurð

Verulegu máli hefur skipt fyrir þróun íslenska heilbrigðiskerfisins hvernig greitt hefur verið fyrir þjónustuna, sagði Birgir Jakobsson landlæknir á fundi Velferðarnefndar BSRB í síðustu viku. Hann sagði að ójafnt væri komið fyrir þeim tveimur kerfum sem notast sé við á Íslandi í dag, þjónustu sem veitt sé af stofnunum í opinberum rekstri annars vegar, en stofum í einkarekstri hins vegar.

Stofnanir sem reknar eru af hinu opinbera eru á fjárlögum og hefur verið skorið markvisst niður í þjónustunni á síðustu árum. BSRB hefur ítrekað bent á að íslenskar heilbrigðisstofnanir hafa verið fjársveltar um langt árabil, sér í lagi í kjölfar hrunsins haustið 2008.

Birgir benti á að ekki hefur verið skorið niður með sama hætti hjá einkareknum stofum. Þær starfa samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar Íslands og fái greitt fyrir aðgerðir og aðra aðkomu að sjúklingum samkvæmt þeim samningum, sem séu bundnir vísitölu. Það þýðir að ekki er skorið niður í þeirri þjónustu, heldur lendir niðurskurðurinn allur á opinberu stofnununum. Það sýni sig meðal annars í því að Sjúkratryggingar Íslands fái sífellt hærri upphæðir á meðan skorið sé niður annarsstaðar.

Önnur áhersla á hinum Norðurlöndunum

Breyta þarf þessu greiðslufyrirkomulagi svo kerfið batni, sagði Birgir. Hann benti á að við úthlutun fjármagns á hinum Norðurlöndunum sé einblínt á magn, gæði, aðgengileika og öryggi þjónustu og byggist greiðslur frá hinu opinbera á því. Íslenska kerfið þurfi að þróast hratt í þá átt.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, sagði það áhyggjuefni að nú standi til að auka enn við einkarekstur í heilbrigðiskerfinu með þremur nýjum einkareknum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Hún tók fram að bandalagið fagni því að reisa eigi nýjar heilsugæslustöðvar, sem sé löngu tími til að gera, en sagði enga ástæðu til annars en að nýju stöðvarnar verði reknar á samfélagslegum grunni eins og þorri heilsugæslustöðva á landinu.

Fylgstu með BSRB á Facebook!


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?