Einkavæðingin nánast stjórnlaus segir landlæknir

Birgir Jakobsson landlæknir talar fyrir því að samningi við sérfræðilækna verði sagt upp, eða hann ekki framlengdur.

Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu hefur verið nánast stjórnlaus í skjóli samnings Sjúkratrygginga Íslands við lækna, sagði Birgir Jakobsson landlæknir á opnum fundi BSRB um heilbrigðismál í gær.

Í erindi sínu á fundinum gagnrýndi Birgir harðlega þá þróun sem orðið hefur í heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum og áratugum. „Þegar ég lít á þróunina á einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu hefur hún verið nánast stjórnlaus,“ sagði Birgir.

Hann benti til að mynda á fréttir af því að átta læknar ætli að stefna ríkinu þar sem þeir fái ekki að ganga inn í samning við Sjúkratryggingar. Svo virðist sem sumir líti á það sem réttindi lækna að skrá sig inn á samninginn, veita þjónustu og senda ríkinu svo reikninginn. Það sé afar einkennilegt, enda eigi enginn rétt á að hefja rekstur á kostnað ríkisins.

„Ég hef verið mjög gagnrýninn á þennan samning og hefði helst viljað að honum yrði sagt upp eða allavega hann verði ekki framlengdur,“ sagði Birgir um þetta mál í viðtali við kvöldfréttir RÚV í gærkvöldi.

Gagnrýndi ólíka fjármögnun

Birgir gagnrýndi í erindi sínu mismunandi fjármögnun opinbera heilbrigðiskerfisins og þess hluta sem er í einkarekstri. Hið opinbera kerfi sé fjármagnað á fjárlögum með fastri upphæð, óháð verkefnum, en í einkageiranum sé greitt fyrir unnin verk.

Þetta greiðslukerfi er mjög hvetjandi fyrir einkarekna þjónustu til að gera sem mest en um leið letjandi fyrir opinberu heilbrigðisþjónustuna. Þetta kerfi hafi leitt til þess að afköstin hafi ekki verið nægilega mikil, og hafi ekki verið í langan tíma.

Þá vísaði landlæknir til nýlegrar rannsóknar embættisins þar sem í ljós komu sterkar vísbendingar um oflækningar hjá einkareknum heilbrigðisfyrirtækjum, eins og fjallað hefur verið um á vef BSRB. Hann sagði kerfið hvetja til oflækninga, það sjáist bæði á fjölda aðgerða og lyfjaneyslu þegar borið sé saman við nágrannalöndin. „Það er greinilegt að við erum að gera aðgerðir sem hafa lítinn eða takmarkaðan árangur,“ sagði Birgir. Hann sagði alla vera að reyna að gera sitt besta, en þetta sé afleiðingin af þessum ólíku kerfum.

„Fyrir neðan allar hellur“

Á fundinum mynduðust líflegar umræður um heilbrigðiskerfið. Kári Stefánsson, frummælandi á fundinum, sagði í svari við fyrirspurn að það sé fráleitt að hætta sé á oflækningum verði þjónustan sjúklingum að kostnaðarlausu. „Oflækningarnar sem við erum að horfa til í dag eiga sér rætur í því hvatakerfi sem ríkir í einkavædda kerfinu og skorti á gæðaeftirliti,“ sagði Kári.

Hann tók fram að með þessu væri hann ekki að gagnrýna Birgi Jakobsson landlækni, sem einnig var með erindi á fundi BSRB. Þvert á móti hafi Birgir gert sitt til að auka eftirlit eftir föngum.

Kári sagði óverjandi hversu mikið sjúklingar þurfi að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. „Það er með ólíkindum að við skulum sætta okkur við að greiðsluþátttaka fólks í íslenska heilbrigðiskerfinu sé einhversstaðar nálægt 30 milljörðum á ári hverju. Það er allt of mikið. Það er dapurlegt að hugsa til þess að fólk sé að fresta því að taka út lyfin sín, að það sé að fresta því að fara í aðgerð og svo framvegis vegna þess að það hefur ekki efni á því. Það er ekki hægt í íslensku samfélagi að það sé staðan, það er fyrir neðan allar hellur.“

Nánar verður fjallað um efni fundarins á vef BSRB á næstunni.

Hægt er að kynna sér nánar baráttu BSRB gegn einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?