Engin störf á dauðri jörð

Verkalýðshreyfingin hefur, eins og aðrir, áhyggjur af umhverfismálum.

Verkalýðshreyfingin lætur ekki sitt eftir liggja í loftslagsmálunum. Víða um heim hafa nauðsynlegar aðgerðir áhrif á lífskjör launafólks og störf þeirra. Því skiptir miklu máli að verkalýðshreyfingin sé höfð með í ráðum þegar verið er að móta aðgerðir til að umskiptin verði sanngjörn og komi ekki niður á lífskjörum launafólks.

Orkuframleiðsla og orkunotkun eru ein stærsta uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda í Evrópu eins og víða annars staðar. Því þarf að breyta framleiðsluháttum í álfunni og lífsvenjum. Nýr forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefur lofað að taka loftslagsmálin enn fastari tökum og lagt fram nýja aðgerðaráætlun „European Green Deal“.

Evrópska verkalýðssambandið, ETUC, sem BSRB á aðild að, styður áform í loftslagsmálum. Sambandið telur mikilvægt sé að bregðast hratt við því augljóslega fyrirfinnist engin störf á dauðri jörð. Samtímis verði breytingarnar að gerast með sanngirni að leiðarljósi. Gerð er krafa um að verkalýðshreyfingin sitji við borðið þar sem ákvarðanir eru mótaðar og teknar til að hagsmunir launafólks verði tryggðir.

Helstu áherslur ETUC eru að fara þurfi að ráðleggingum vísindamanna til að áform um kolefnishlutleysi árið 2050 náist. Auka þurfi fjármagn til fjárfestinga sem miði að samdrætti í losun og búi til ný og góð störf til frambúðar.

ETUC bendir á að loftslagsvandinn sé hnattrænn og því þurfi að gæta að sanngjarnri byrði á heimsvísu í öllum aðgerðum og milliríkjasamningum.

ETUC hvetur aðildarsambönd sín til að leggja áherslu á loftslagsmál í samskiptum sínum við atvinnurekendur og stjórnvöld. Formaður BSRB reið á vaðið í þessum efnum og hefur óskað eftir því að loftslagsmál verði rædd á vettvangi Þjóðhagsráðs en þar eiga sæti forystufólk stjórnarflokkanna og aðilar vinnumarkaðarins. Í umsögnum um þingmál sem varða loftslagsaðgerðir hefur BSRB lagt áherslu á að greining á áhrifum aðgerða á mismunandi tekjuhópa verði gerð og brugðist við ef hallar á tekjulægri hópa, með breyttum áherslum eða mótvægisaðgerðum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?