Enginn arður af heilsugæslustöðvum

Til stendur að banna öllum einkareknum heilsugæslustöðvum að greiða eigendum sínum arð, ekki aðeins þeim þremur nýju stöðvum sem áformað er að reisa á næstunni. Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn á Alþingi.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði ráðherrann hvort gerðar verði sömu kröfur til allra einkarekinna heilsugæslustöðva um að greiða ekki út arð að rekstrinum eins og fyrirhugað sé að áskilja í rekstri þriggja nýrra stöðva sem ráðherrann hafi ákveðið að bjóða út.

Sömu kröfur gerðar til allra
Svar ráðherrans er stutt: „Sömu kröfur verða gerðar til allra einkarekinna og opinberra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.“

Þó svarið mætti gjarnan vera ítarlegra er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að eigendum þeirra tveggja einkareknu heilsugæslustöðva sem þegar eru með starfsemi verði hér eftir óheimilt að greiða sér arð af starfseminni, sem þeir hafa gert hingað til. Nema ráðherra sé þegar búinn að ákveða að breyta áformum um að banna arðgreiðslur úr nýju stöðvunum þremur. Þar sem hann hefur ekki tilkynnt um neitt slíkt opinberlega er ekki annað hægt en að ganga út frá því sem hann hefur sagt hingað til.

Andmælum einkarekinni heilsugæslu
BSRB hefur fagnað því að opna eigi þrjár nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, enda brýn þörf fyrir fjölgun stöðvanna. Bandalagið hefur hins vegar andmælt því harðlega að stöðvarnar verði reknar af einkaaðilum í stað Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Það er skýr stefna bandalagsins að heilbrigðisþjónustu eigi að reka á samfélagslegum grunni. Það viðhorf rímar við skoðanir um 80 prósenta landsmanna, sem eru vilja að ríkið reki sjálft heilbrigðisstofnanir, ekki einkaaðilar.

BSRB mun ásamt ASÍ standa fyrir opnum fundi um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni þriðjudaginn 3. maí. Yfirskrift fundarins er: Er einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni almannahagur? Við hvetjum alla til að mæta. Þeir sem vilja geta skráð þátttöku á Facebook.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?