Ný skýrsla Félagsvísindastofnunar, unnin fyrir Tryggingastofnun í samstarfi við félags- og húsnæðismálaráðuneytið, Vinnueftirlitið og Velferðarvaktina, var kynnt á málþingi í gær. Konur á aldrinum 50-66 ára eru fjölmennasti hópur fólks á örokulífeyri. Skýrslan varpar ljósi á reynslu og aðstæður þeirra.
Krefjandi störf, ofbeldi og fjárhagsörðugleikar
Samkvæmt niðurstöðunum eru konurnar í þessum hópi líklegri til að hafa verið í meira líkamlega og andlega krefjandi vinnu en aðrar konur í sama aldurshópi, þær hafa frekar orðið fyrir ofbeldi og búið við erfiðar fjárhagsaðstæður og minna húsnæðisöryggi.
Mikilvægt að fylgjast með áhrifum nýja kerfisins
„Það er nauðsynlegt að fá grunnlínu upplýsinga svo hægt sé að meta hvort breytingarnar á almannatryggingakerfinu, sem taka gildi 1. september, hafi áhrif,“ segir Huld Magnúsdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar. Meðal breytinga eru hvatar til atvinnuþátttöku, nýtt samþætt sérfræðimat og heildstæðari endurhæfingarþjónusta.
Niðurstöður skýrslunnar og kröfur Kvennaárs
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, var meðal frummælenda á málþinginu. Hún setti niðurstöður rannsóknarinnar í samhengi við Kvennaár og kröfu BSRB um leiðréttingu á virði kvennastarfa: „Í rannsókninni má glöggt sjá hvernig álag á vinnumarkaði, umönnunarábyrgð og ofbeldi algengt hjá konunum í þessum hópi og er mögulega ástæða þess að konur eru miklu líklegri til að missa starfsgetu á efri árum en karlar,“ sagði Sigríður Ingibjörg.
25% kvenna á aldrinum 60 - 66 ára eru á örorkulífeyri

Sigríður Ingibjörg setti niðurstöðurnar í samhengi við kröfur Kvennaárs