Enn frekari verkföll BSRB samþykkt um land allt

Verkfallsvörður á Seltjarnarnesi

Kl 11 í dag lauk atkvæðagreiðslu um frekari verkfallsaðgerðir BSRB félaga um allt land* vegna kjaradeilu BSRB við sveitarfélög landsins.

Verkfallsboðun um frekari aðgerðir var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta í 29 sveitarfélögum, og eru þau eftirfarandi:

Akranes
Akureyri
Árborg
Bláskógarbyggð
Borgarbyggð
Dalvíkurbyggð
Fjallabyggð
Grindavík
Grímsnes- og Grafningshreppur
Grundafjarðarbær
Hafnarfjörður
Hveragerði
Ísafjarðarbær
Kópavogur
Mosfellsbær
Mýrdalshreppur
Norðurþing
Rangárþing Eystra
Rangárþing Ytra
Reykjanesbær
Seltjarnarnes
Skagafjörður
Snæfellsbær
Stykkishólmur
Suðurnesjabær
Vestmanneyjar
Vogar
Ölfus


Um er að ræða starfsfólk leikskóla, sundlauga- og íþróttamannvirkja, bæjarskrifstofa, hafna, þjónustumiðstöðva og áhaldahúsa svo eitthvað sé nefnt en mismunandi er eftir sveitarfélögum hvaða hópar leggja niður störf á hverjum tíma. Um er að ræða ótímabundið verkfall hjá sundlaugum og íþróttamannvirkjum um allt land.

„Niðurstaðan endurspeglar þá ríku samstöðu félagsfólks um að láta ekki bjóða sér þetta misrétti. Það er mikil ólga í hópnum sem skilur ekki sinnuleysi bæjar- og sveitarstjórnarfulltrúa sinna og upplifir það sem virðingarleysi gagnvart störfum þeirra. Það stefnir því í mjög umfangsmiklar verkfallsaðgerðir sem munu hafa víðtæk áhrif á starfsemi sveitarfélaga.“– sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, um atkvæðagreiðsluna.

Á mánudaginn hófust verkföll í Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi og á mánudag bætast við sex sveitarfélög til viðbótar og koll af kolli. Aukinn þungi færist því í aðgerðir eftir sem líður ef ekki næst að semja.

*Atkvæðagreiðsla stendur enn yfir í Garðabæ en henni lýkur á hádegi á morgun, laugardag.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?