Er einkarekstur almannahagur?

Mikill meirihluti landsmanna, rúm 80%, vill að heilbrigðiskerfið sé rekið að miklu eða mestu leyti á samfélagslegum grunni, af stofnunum sem eru í eigu almennings. Þrátt fyrir þá afgerandi andstöðu við einkarekstur sem kannanir sýna áforma stjórnvöld nú að opna þrjár nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

Lítil umræða hefur átt sér stað um þessa ákvörðun, sem var tekin af heilbrigðisráðherra án þess að Alþingi fengi að koma að málinu, eða fjalla um málið.

Með því að auka á einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu er verið að breyta kerfinu, mögulega til framtíðar, án þess að almenningur fái að hafa sitt að segja, fjalla um þá kosti og galla sem eru á hverju rekstrarformi fyrir sig.

Til að auka á umræðuna ætla BSRB og ASÍ að standa sameiginlega að málþingi þriðjudaginn 3. maí. Yfirskrift málþingsins verður: Er einkarekstur í heilbrigðisþjónustu almannahagur?

Sérfræðingarnir svara
Til að svara þessari spurningu höfum við fengið Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, dósent í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, og Þórarinn Ingólfsson, formann Félags íslenskra heimilislækna.

Að framsögum loknum munu frummælendur skipa pallborð ásamt Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmanni og formanni Velferðarnefndar Alþingis, og Ragnheiði Ríkarðsdóttur, þingmanni sem á sæti í Velferðarnefnd Alþingis.

Við hvetjum alla til að kynna sér dagskrá málþingsins 3. maí. Þá hefur verið stofnaður viðburður á Facebook þar sem hægt er að fá upplýsingar, koma spurningum á framfæri. Þeir sem vilja geta skráð sig til þátttöku á Facebook, en það er ekki nauðsynlegt.

Við hverjum fólk til að fjölmenna!


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?