Er íbúalýðræði leiðin til betri stjórnhátta?

Samband íslenskra sveitarfélaga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála standa fyrir opnu síðdegismálþingi föstudaginn 30. janúar 2015 kl. 15:00-17:30 í Norræna húsinu í tilefni að útkomu nýrrar bókar dr. Gunnars Helga Kristinssonar stjórnmálafræðiprófessors.

Í bókinni er gerð grein fyrir stórri rannsókn á lýðræðis- og valdakerfum íslenskra sveitarfélaga sem framkvæmd var við Háskóla Íslands á árunum 2008-2012. Á undanförnum árum hafa hugmyndir um íbúalýðræði átt vaxandi fylgi að fagna á Íslandi. Sumir sjá í íbúalýðræði mótvægi við valdamikla stjórnmálaflokka og bæjarstjóra sem stundum eru taldir starfa í full miklu návígi við áhrifamikil fyrirtæki og verktaka. Íbúalýðræði gæti, samkvæmt því, skapað betra jafnvægi milli sérhagsmuna og almannahags við stjórnun sveitarfélaga.

Gunnar Helgi tekur að hluta undir það sjónarmið en bendir jafnframt á að veikleikar í stjórnkerfum sveitarfélaganna kalli á mun fjölþættari umbætur. Góðir stjórnhættir kalla ekki síður á sterkt fulltrúalýðræði og aðhald frá faglegri stjórnsýslu og landsstjórninni en aukna þátttöku íbúa. Ofuráhersla á íbúalýðræði felur í sér hættu á ofmati á kostum þeirrar aðferðar og vanmat á mikilvægi annars konar umbóta.

Frummælandi á málþinginu verður dr. Gunnar Helgi Kristinsson prófessor, og við hans erindi og niðurstöðum bókarinnar bregðast bæjarstjórarnir dr. Gunnar Einarsson Garðabæ, Regína Ásvaldsdóttir Akranesi og Róbert Ragnarsson Grindavík.


 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?