Evrópsk samstaða um endurmat á virði kvennastarfa

Kerfisbundið vanmat á kvennastörfum og aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi voru til umræðu á Kvennaþingi EPSU, regnhlífarsamtökum evrópskra stéttafélaga í almannaþjónustu 24. nóvember. Þingið var haldið í tilefni alþjóðlegs baráttudags gegn ofbeldi gegn konum í Róm. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Freyja Steingrímsdóttir sóttu þingið fyrir hönd BSRB.

Lara Ghiglione, famkvæmdarstjóri CGIL, ítölsku heildarsamtaka starfsfólks í almannaþjónustu, sagði á fundinum frá bakslagi í jafnréttismálum á Ítalíu undir sitjandi ríkisstjórn sem leggur áherslu á íhaldssöm hægri gildi föðurlandsins og fjölskyldunnar og leggur áherslu á hlutverk kvenna innan veggja heimilisins. Launamunur kynjanna fari ekki minnkandi, kynbundið ofbeldi fer vaxandi ef eitthvað er og tekin hafi verið skref til að þrengja að rétti kvenna að þungunarrofs. Ítalska verkalýðshreyfingin hefur því gripið til ýmissa aðgerða og sett á fót samráðsvettvang til að reyna að sporna við neikvæðri þróun í jafnréttismálum.

Freyja Steingrímsdóttir, samskiptastjóri BSRB, kynnti aðgerðir og kröfur Kvennaverkfallsins 24. október fyrir ráðstefnugestum, og lagði þar áherslu á samstöðu og kraft kvenna til að unnt sé að ná árangri þegar kemur að því að draga úr launamisrétti og útrýma kynbundnu ofbeldi. Hún sagði þátttöku og frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar skipta höfuðmáli í baráttunni.

Johanna Lehmann, framkvæmdarstjóri jafnréttismála hjá hugveitunni FEPS, ræddi um mikilvægi þess að verkalýðshreyfingin setji á oddinn umhyggjuhagkerfi sem byggir undir og fjárfestir í velferðarþjónustu og velmegun almennings. Hún sagði nauðsynlegt að auka hlutfall kvenna á evrópskum vinnumarkaði ekki bara jafnréttisbaráttunnar vegna, heldur einnig væri það efnahagsleg nauðsyn eins og dæmi sanna. Leggja ætti áherslu á að meta launaða og ólaunaða vinnu kvenna að verðleikum og tryggja foreldrum rétt til fæðingarorlofs og aðgengi að barnaumönnun að því loknu.

Þá var einnig rætt um leiðir til þess að auka veg kvenna og jaðarsettra hópa innan verkalýðshreyfingarinnar og aðgerðir til að valdefla konur til þátttöku í stéttabaráttu. 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?