Fæðingarorlof feðra umbylti samfélaginu

Hluti íslenska hópsins á fundi kvennanefndar SÞ. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, er fremst til vinstri á myndinni.

Fæðingarorlof feðra hefur umbylt íslensku samfélagi og hefur gert feður virkari í uppeldi barna sinna en er einnig lykilþáttur í því að jafna stöðu kynja á vinnumarkaði, sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún ávarpaði 63. fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York.

Góður árangur Norðurlandanna í jafnréttismálum er ekki til kominn af engu og alveg rétt að fæðingarorlof og aðrar leiðir til að auka á jafnrétti kosta peninga, sagði Katrín. „En kostnaðurinn við að halda óbreyttu ástandi væri hærri og við höfum lagt í mikilvæga stefnumörkun til að flýta ferlinu,“ sagði hún.

Mikill fjöldi fundargesta hlýddi á Katrínu og aðra sem tóku til máls í pallborðsumræðum norrænna ráðherra. Þar sagði hún að til standi að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum í tólf. Hún sagði einnig að það hafi skipt sköpum fyrir fæðingarorlofskerfið á Íslandi að aðilar vinnumarkaðarins hafi verið með frá upphafi og það væri fjármagnað með tryggingargjaldinu.

BSRB hefur lengi beitt sér fyrir lengingu fæðingarorlofsins í 12 mánuði. Bandalagið hefur einnig barist fyrir hækkun á greiðsluþaki og því að fyrstu 300 þúsund krónurnar af launum fólks í fæðingarorlofi skerðist ekki til að gera tekjulægri foreldrum auðveldara að taka fæðingarorlof.

Lestu meira um stefnu BSRB um fæðingarorlof og önnur jafnréttismál.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?