Fagháskólanámssjóður styrkir öldrunarhjúkrun

Gera þarf miklar breytingar á heilbrigðiskerfinu vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar. Þær kalla á auknar kröfur um menntun, sérhæfingu, samskiptahæfni sveigjanleika, jafnrétti og sköpun.

Fagháskólanámssjóður BSRB, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins hefur ákveðið að styrkja þróun þriggja verkefna á sviði fagháskólanáms í samræmi við samkomulag við mennta- og menningarmálaráðuneytið frá síðasta ári.

Verkefnin sem styrkt verða eru fagháskólanám í öldrunarhjúkrun fyrir sjúkraliða við Háskólann á Akureyri, fagháskólanám í verslunarstjórnun sem kennt verður í samstarfi Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst og fagháskólanám í iðn-, verk- og tæknigreinum við Háskólann í Reykjavík. Heildarfjárhæð styrkja fyrir verkefnin þrjú eru 50 milljónir króna.

Háskólinn á Akureyri og Sjúkraliðafélag Íslands hafa samið um að þróa sameiginlega fagháskólanám sem byggir á hæfnigreiningu fyrir starf á 4. þrepi í öldrunarhjúkrun fyrir starfandi sjúkraliða í samstarfi við heilbrigðisstofnanir.

Námið hefur þann tilgang að auka enn frekar hæfni sjúkraliða til að sinna öldruðu einstaklingum og vinna að heilsueflingu og forvörnum meðal aldraðra auk þess að auka sjálfstæði og ábyrgð sjúkraliða innan og utan stofnana og að svara þörfum fyrir aukna sérþekkingu. Jafnframt er það markmið verkefnisins að opna dyr fyrir sjúkraliða í háskólanám.

Lengri lífaldur einstaklinga og auknir meðferðarmöguleikar margra langvinnra sjúkdóma hafa leitt til breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Fleiri lifa nú á tímum með langvinna flókna sjúkdóma og fötlun. Afleiðingar þessa eru miklar breytingar á heilbrigðiskerfinu hér á landi sem erlendis, sem hafa kallað á enn auknar kröfur um menntun, sérhæfingu, samskiptahæfni, sveigjanleika, jafnrétti og sköpun.

Stórt skref sem ber að fagna

Frá því fyrst var boðið upp á framhaldsnám sjúkraliða í öldrunarhjúkrun ári 2002 hefur Sjúkraliðafélag Íslands barist fyrir því að námið yrði á fagháskólastigi rétt eins og þekkist hjá þeim löndum sem við höfum borið okkur saman bið, segir Birna Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Sjúkraliðafélags Íslands, sem unnið hefur að verkefninu fyrir hönd félagsins.

„Með þessu stóra skrefi í menntunarmálum sjúkraliða verður framhaldsnámið metið til ECTS eininga með námslok á háskólastigi. Þessi mikilvægi áfangi er góð viðurkenning á menntun sem hefur atvinnutengd lokamarkmið. Því ber að fagna,“ segir Birna.

Sjúkraliðar eru heilbrigðisstarfsmenn með lögverndað starfsheiti á Íslandi. Um 3.000 félagsmenn eru í Sjúkraliðafélagi Íslands, þar af um 2.000 starfandi.

Miðað er við að námið verði kennt með vinnu á tveimur árum og skiptist í almenna áfanga á heilbrigðissviði og sérhæfða áfanga á öldrunarsviði. Kennsla og verkefnavinnsla taki mið af miklu hópstarfi, umræðum og raunhæfri verkefnavinnslu út frá reynslu og tengt störfum nemenda í hinum ýmsu stofnunum innan heilbrigðiskerfisins.

Háskólinn á Akureyri vílar ekki fyrir sér að fara af stað með nám sem samfélagið kallar á, segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor háskólans í frétt á vef skólans. „Mikil vöntun er á fagaðilum í öldrunarhjúkrun og með þróun þessa náms gerum við starfandi sjúkraliðum fært að sinna þessum störfum enn betur,“ segir Eyjólfur

Fagháskólanám í verslunarstjórnun og í iðn-, verk- og tækninámi

Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Bifröst og Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks hafa samið um að þróa sameiginlega fagháskólanám sem byggir á hæfnigreiningu fyrir starf verslunarstjóra.

Markmið verkefnisins er að bæta þekkingu í verslunarstjórnun með því að þróa og bjóða upp á námsleið á fagháskólastigi fyrir verslunarstjóra og að opna dyr fyrir þá sem mennta sig í verslun og þjónustu og vilja halda áfram í háskólanámi. Námið verður kennt með vinnu og á að taka tvö ár í dreifnámi.

Þá hafa Háskólinn í Reykjavík, Tækniskólinn, IÐAN og Rafiðnaðarskólinn samið um samstarf varðandi þróun fagháskólanáms fyrir iðnaðarmenn í byggingagriðngreinum, rafiðngreinum og vél-, málm- og bílgreinum. Verkefnið snýst í meginatriðum um að rýna og þróa nám ætlað iðnsveinum, það er iðnmeistarapróf, iðnfræði og tæknifræði, með það fyrir augum að þessar námsbrautir myndi eins góða samfellu og kostur er og uppfylli þarfir atvinnulífsins og væntingar menntamálayfirvalda, vinnumarkaðar og skóla um þekkingu, leikni og hæfni.

Markmið verkefnisins er að bæta gæði iðn- og tæknináms og stækka verulega þann hóp sem sækir iðnnám, samhliða því að fjölga verulega þeim sem bæta hagnýtu framhaldsnámi ofan á iðnnám til sveinsprófs.

Öll verkefnin hafa hlotið vilyrði um styrk úr fagháskólanámssjóði ASÍ, BSRB og SA. Þá hefur jafnframt verið sótt um framlag frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til þróunar námsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?