Félagar í SFR og St.Rv. samþykkja sameiningu

Garðar Hilmarsson (t.v.), formaður St.Rv. og Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, fögnuðu niðurstöðunni eftir að atkvæði höfðu verið talin.

SFR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar (St.Rv.), tvö stærstu aðildarfélög BSRB, verða sameinuð í eitt félag í kjölfar allsherjaratkvæðagreiðslu hjá báðum félögunum sem lauk á hádegi í dag.

SFR og St.Rv. eru langstærstu aðildarfélög BSRB með samanlagt um 10.300 félagsmenn. Það er tæpur helmingur félagsmanna aðildarfélaga BSRB, sem eru um 21 þúsund talsins. Eftir sameiningu verður félagið þriðja stærsta stéttarfélag landsins.

Forysta félaganna fagnar þessum úrslitum og þakkar öllum þeim fjölda félagsmanna sem kynntu sér málið og tóku þátt í atkvæðagreiðslunni, að því er fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu sem birt er á vefsíðum SFR og St.Rv.

„Við lítum björtum augum til framtíðar og þeirra tækifæra sem stærra og sterkara stéttarfélag mun gefa okkur. Sameinað félag mun vera betur í stakk búið til þess að mæta verkefnum framtíðarvinnumarkaðarins. Við munum í nýju félagi standa vörð um réttindi og kjör félagsmanna og leitast við að auka þjónustuna. Þetta verða sameiginleg verkefni okkar næstu misserin og munu trúnaðarmenn sem og félagsmenn allir vera virkjaðir í því starfi,“ segir í yfirlýsingu félaganna.

Alls tóku 40,75% félagsmanna SFR þátt í atkvæðagreiðslunni og féllu atkvæði þannig: 57,25% sögðu já en 37,07% sögðu nei, en 5,68% tóku ekki afstöðu.

Hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar féllu atkvæði þannig að 77,2% sögðu já en 17,56% sögðu nei, en 5,5% tóku ekki afstöðu. Alls tóku 27,34% félagsmanna St.Rv. þátt í atkvæðagreiðslunni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?