FFR, LSS og SFR-félgar hjá Isavia í verkfall

Samningafundur SFR, FFR og LSS við Isavia þar sem þess var freistað að ná samningum áður en verkfall skellur á í nótt bar ekki tilskyldan árangur.  Mikill hugur er í starfsmönnum Isavia en stór meirihluti þeirra samþykkti verkfall (88%), sem mun ná til alls 450 starfsmanna á flugvöllum um land allt. Starfsmennirnir sem um ræðir eru m.a. öryggisverðir á Keflavíkurflugvelli, skrifstofufólk og starfsmenn í björgunar- og viðbragðsþjónustu á flugvöllum um allt land, en starfsmennirnir tilheyra ýmist félagi  flugmálastarfsmanna ríkisins, SFR stéttarfélagi eða Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Vinnustöðvun þessara aðila þýðir í raun að öll flugumferð á landinu mun stöðvast á þeim tíma sem verkfallið stendur yfir. Mest áhrif munu þó væntanlega verða á Keflavíkurflugvelli en búast má við að allt flug þar stöðvist á milli klukkan fjögur til níu í fyrramálið, að morgni þriðjudagsins 8. apríl, en verkstöðvun hefur verið boðuð á þeim tíma.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?