Fjallað um #metoo á alþjóðlegri ráðstefnu

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, stýrði einni af málstofum ráðstefnunnar.
Mynd: Forsætisráðuneytið/BIG

Nú í haust eru liðin tvö ár frá því konur hófu að deila sögum af kynferðislegri- og kynbundinni áreitni á samfélagsmiðlum undir formerkjum #metoo. Af því tilefni var haldin alþjóðleg ráðstefna um #metoo í Hörpu í vikunni.

Íslensk stjórnvöld, Norræna ráðherranefndin og Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands stóðu að ráðstefnunni. Þátttakendur og fyrirlesarar komu víðsvegar að og voru samtals um 800 manns skráðir á ráðstefnuna.

Ráðstefnunni var skipt í þrjú þemu, og má segja að þau hafi verið upphafið, það að konur stigu fram, viðbrögðin við því fyrst um sinn og hvernig hægt er að tryggja kerfisbreytingar svo konur, og aðrir viðkvæmir hópar, séu örugg á öllum sviðum samfélagsins, jafnt í vinnu og einkalífinu. Sérstakar málstofur voru haldnar um konur af erlendum uppruna, konur með fötlun og um ábyrgð og meðferð gerenda, auk fjölmarga annarra viðfangsefna.

Kynntar voru niðurstöður úr stórri rannsókn sem gerð var á íslenskum vinnumarkaði á áreitni, einelti og ofbeldi, en starfshópar á vegum Félagsmálaráðuneytisins hafa unnið bæði að rannsókninni og mögulegum breytingum á reglum, ferlum og fleiru sem þarf að koma til í kjölfar #metoo. BSRB á fulltrúa í þessum hópum.

Formaður BSRB stýrði málstofu

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, stýrði málstofu um kynferðislega áreitni í vinnu. Þar töluðu Jóhann Friðrik Friðriksson, sem er formaður aðgerðarhóps Félagsmálaráðuneytisins, Marie Clarke Walker, frá stærstu launþegasamtökum Kanada, auk fræðimanna og aktívista frá Norðurlöndunum. Malin Gustavsson, frá finnsku samtökunum Ekvalita, var með afar áhugaverða kynningu á fræðslu gegn áreitni og ofbeldi sem búið er að þróa í Finnlandi.

Sonja sagði í lok málstofunnar að hún væri orðin langþreytt á því að bíða eftir aðgerðum á þessu sviði og að BSRB myndi nýta sér þau tól sem erlendir fyrirlesarar hafi kynnt á ráðstefnunni.

Í heildina var ráðstefnan afar gagnleg og áhugaverð, og mikill innblástur fyrir vinnuna sem framundan er við að útrýma kynferðislegri og kynbundinni áreitni á íslenskum vinnumarkaði og í samfélaginu öllu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?