Fjögur bæjarstarfsmannafélög BSRB skrifa undir

Fjögur bæjarstarfsmannafélög BSRB skrifuðu fyrr í dag undir kjarasamninga við Samninganefnd ríkisins. Félögin sem um ræðir eru Starfsmannafélag Garðabæjar, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Starfsmannafélag Kópavogs og Starfsmannafélag Suðurnesja.

Samningurinn nær til félagsmanna umræddra aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríkinu. Kjarasamningurinn er sambærilegur þeim sem SFR undirritaði við Samninganefnd ríkisins á s.l. fimmtudagskvöld og þeim samningum sem Starfsmannafélag Fjallabyggðar,Starfsmannafélag Vestmannaeyja, Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Félag opinberra starfsmanna á Húsavík, Starfsmannafélag Dala og Snæfellssýslu auk Félags opinberra starfsmanna á Austurlandi undirrituðu s.l. föstudagskvöld.

Helstu atriði samningsins eru:

  • að laun hækki um 2,8% eða að lágmarki 8000. kr. fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Á launum sem eru lægri en 230.000 kr. á mánuði komi sérstök hækkun til viðbótar að upphæð 1.750 kr.
  • við samþykkt samningsins greiðist 14.600 kr. eingreiðsla miðað við fullt starf í febrúar 2014 en hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall í sama mánuði þar sem það á við.
  • eingreiðsla 20.000 kr. miðað við þá sem eru í fullu starfi í febrúar 2015 greiðist þann 1. apríl 2015 en hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall í sama mánuði.
  • persónuuppbót verður á samningstímanum 73.600 kr.
  • orlofsuppbót verður á samningstímanum 39.500 kr.
  • samningurinn mun gilda frá 1. mars 2014 til 30. apríl 2015

 

Samningarnir sem bæjarstarfsmannafélögin undirrituðu í dag og fyrir helgi verða kynntir félagsmönnum á næstu dögum og í kjölfarið bornir undir atkvæði.

Þar með hafa tíu af bæjarstarfsmannafélögum BSRB skrifað undir nýja kjarasamninga við ríkið en fyrr í mánuðnum höfnuðu félagsmenn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (St.Rv) samningi sem félagið hafði gert við Reykjavíkurborg. Viðræður milli Samninganefndar Reykjavíkurborgar og St. Rv hófust að nýju um helgina og hafa staðið með hléum í dag.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?