Fleiri foreldrar fái barnabætur

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Ráðast þarf í heildarendurskoðun á íslenska barnabótakerfinu með það að markmiði að skerðingarmörkin hækki verulega og fleiri foreldrar fái fullar bætur. Ný skýrsla sem Kolbeinn Stefánsson félagsfræðingur vann fyrir BSRB sýnir með skýrum hætti að kerfið er flókið og ómarkvisst.

Ólíkt barnabótakerfunum á hinum Norðurlöndunum eru það fyrst og fremst allra tekjulægstu foreldrarnir sem fá barnabætur á Íslandi. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi fá allir foreldrar sömu barnabætur, óháð efnahag. Í Danmörku eru barnabæturnar skertar hjá fólki sem komið er um eða yfir meðaltekjur.

Það er afar slæmt að íslenska barnabótakerfið sé farið að virka eingöngu sem ómarkviss og stundum tilviljunarkenndur stuðningur við þá allra tekjulægstu. Þannig skerðist stuðningurinn til dæmis verulega þegar börnin ná sjö ára aldri og í sumum tilfellum fá einstæðir foreldrar minni bætur en foreldrar í hjúskap þrátt fyrir sama fjölda barna. Aðgerðir eins og að hnika örlítið til skerðingarmörkum og hækka barnabæturnar eru ekki nægilegar þegar ekki er hægt að reikna með að þær skili sér til allra þeirra fjölskyldna sem þurfa á stuðningi að halda.

BSRB telur nauðsynlegt að endurskoða íslenska kerfið frá grunni og líta helst til danska kerfisins sem fyrirmyndar. Það þarf að byggja nýtt barnabótakerfi sem byggir á bestu mögulegu gögnum um þarfir ólíkra fjölskyldna.

Við eigum ekki að sætta okkur við að skerðingarnar í barnabótakerfinu séu svo miklar að launafólk á lágmarkslaunum fái litlar sem engar barnabætur. Vissulega er jákvætt að styðja vel við allra tekjulægstu hópana í samfélaginu en þá þarf að gera það óháð aldri barna og ljóst er að fleiri þurfa á aðstoðinni að halda.

Eigi barnabótakerfið að skila þeim grundvallarmarkmiðum að jafna stöðu barnafjölskyldna þarf að styðja við mun stærri hóp foreldra en gert er í dag.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu í dag.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?