Fögnum boði ríkisstjórnarinnar um samráð

BSRB óskar nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og fagnar boðuðu samráði við bandalagið og aðra aðila vinnumarkaðarins.

BSRB óskar nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra velfarnaðar og fagnar því samtali um mikilvæga málaflokka sem boðað er í stjórnarsáttmálanum.

Í sáttmálanum boðar ríkisstjórnin aukið samráð við vinnumarkaðinn um sterkara samfélag. BSRB mun að sjálfsögðu taka þátt í slíku samráði með það að leiðarljósi að ná sátt um þau stóru mál sem bíða.

Við lestur á stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar vakna ýmsar spurningar enda margt þar sem þarf að skýra betur, enda ekki við því að búast að hægt sé að útfæra nákvæmlega stefnuna í einstökum málum í því skjali. Með hliðsjón af stefnu BSRB er orðalag sáttmálans á köflum jákvætt en fátt fast í hendi um áform stjórnarinnar í mikilvægum málaflokkum eftir lesturinn.

Vonandi þýðir þetta það eitt að ríkisstjórnin sé ekki búin að binda sig við nákvæma útfærslu í þessum málaflokkum og að hægt verði að koma þar að sjónarmiðum félagsmanna aðildarfélaga BSRB og annars launafólks.

Á endanum eru það efndirnar sem skipta máli. Ljóst er að risavaxin verkefni bíða ríkisstjórnarinnar og miklar væntingar landsmanna eru til bæði breytinga á landslaginu í íslenskum stjórnmálum og auknum félagslegum- og efnahagslegum stöðugleika. BSRB óskar nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og lýsir yfir vilja sínum til samstarfs.

Hægt er að lesa stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?