Eigi heilsugæslan að vera fyrsti viðkomustaður þeirra sem þurfa að leita til heilbrigðisþjónustunnar verður að vera tryggt að hún sé í stakk búin til að taka á móti þeim sem til hennar leita. Það er því ástæða til að fagna opnun nýrrar heilsugæslustöðvar í Mývatnssveit.
Ákveðið var að byggja nýtt húsnæði fyrir heilsugæsluna í Mývatnssveit, sem er hluti af Heilbrigðisstofnun Norðurlands, en heilsugæslan hafði verið í óviðunandi húsnæði um nokkurt skeið. Húsið var um ár í byggingu og var tekið formlega í notkun nú í vikunni.
Víða er þörf á uppbyggingu heilsugæslustöðva og virðist vilji stjórnvalda standa til þess að bæta úr þar sem ástandið er óviðunandi. Það á meðal annars við á höfuðborgarsvæðinu.
BSRB styður áform um að byggja upp heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, en hefur mótmælt harðlega þeim áformum stjórnvalda að byggja upp nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar í stað þess að byggja upp stöðvar undir merkjum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Samhliða þarf að bæta úr bágri fjárhagsstöðu þeirrar stofnunar, sem hefur verið í fjársvelti árum saman.
Aukið álag vegna ferðamanna
Þó aðeins búi um 400 manns á því svæði sem nýja heilsugæslustöðin í Mývatnssveit þjónar er bent á það í frétt á vef Velferðarráðuneytisins að það segi lítið um umfang þjónustunnar, enda fari ferðamannastraumur á svæðinu sívaxandi. Þau rök eiga raunar líka við víðar, þar sem gríðarleg aukning hefur orðið í fjölgun ferðamanna, án þess að innviðir á borð við heilsugæslu og heilbrigðiskerfið almennt hafi verið lagað að því álagi sem því fylgir.
Eigi heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu að anna því aukna álagi sem fylgir auknum mannfjölda og gríðarlegri aukningu ferðamanna verður að hafa hraðar hendur við uppbyggingu hennar á næstu árum. Meirihluti almennings er andvígur aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og breytir þar engu hvort notað er fallegra orð eins og einkarekstur yfir þá einkavæðingu. BSRB tekur undir þau sjónarmið mikils meirihluta almennings.
Fögnum uppbyggingu heilsugæslunnar
12. ágú 2016
heilsugæsla, heilbrigðismál