Formaður BSRB ávarpaði ráðstefnu NTR

Árleg ráðstefna NTR, Nordisk Tjänstemannsråd, hófst í Reykjavík í dag. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB ávarpaði ráðstefnuna við setningu hennar í dag.

NTR eru samtök bæjarstarfsmanna á Norðurlöndum og halda samtökin árlega ráðstefnu sína á íslandi að þessu sinni. Tæplega 100 fulltrúar frá Íslandi, Færeyjum Noregi, Svíþjóð og Danmörku munu taka þátt.

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar - stéttarfélags í almannaþjónustu og formaður íslenska NTR hópsins, setti ráðstefnuna og því loknu flutti Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, ávarp. Dan Nielsen, framkvæmdastjóri NTR bauð gesti einnig velkomna sem og Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Elín Björg sagði m.a. í ávarpi sínu að hún hefði kynnt mikilvægi norræns samstarf í gegnum störf sín hjá NTR: „Í gegnum NTR, hef ég lært mikið og það sem einkennir norræna samstarfið fyrst og síðast er mikil víðsýni, virðing og fagmennska. Þessi gildi eru líka rík í okkar menningu og hvernig við byggjum samfélagin upp. Á Norðurlöndunum erum við sammála um að allir eigi að njóta sama réttar til menntunar og heilbrigðisþjónustu.“

„Sú þjóðfélagsskipan sem við höfum komið á hér á Norðurlöndunum er eitthvað sem aðrar þjóðir horfa til og öfunda okkar af. Þótt við séum ekki nema lítið brot af öllu mannkyninu eru það Norðurlöndin sem eru fyrirmynd flestra ríkja á alþjóðlegum vettvangi.“

„Jöfnuður fólksins er framar öllu öðru og með samtaka mætti okkar hefur tekist að byggja upp kerfi sem er kleift að veita fólki jöfn tækifæri, óháð efnahag, fjölskylduaðstæðum, búsetu eða öðru sem kann að greina okkur hvert frá öðru.

En þessum grunngildum okkar er sífellt ógnað eins og sakir standa. Mikill þrýstingur er á að lækka skatta, draga úr útgjöldum hins opinbera og það býður vissulega mörgum hættum heim. Við sem störfum hjá stéttarfélögum opinberra starfsmanna vitum vel að allt tal um hagræðingar og lægri skattbyrgði þýðir í raun fækkun starfsfólks hjá ríki og sveitarfélögum, verri þjónusta til þeirra sem mest þurfa á að halda og aukin misskipting.“

„Velferðarkerfi Norðurlandanna eru einstök og hafa fyrir löngu sannað sig sem árangursríkt verkfæri til að jafna stöðu fólks. Við hér á Íslandi þekkjum það mæta vel eftir erfiðleika síðustu ára að fátt er okkur mikilvægara en öflugt velferðarkerfi sem mildar höggið þegar erfiðleikar bjáta á. Það sýndi sig að þótt allt keyri um koll sér samfélagið um þá sem eiga sárast um að binda og velferðarkerfið sér til þess að fólk nær sér aftur á strik mun fyrr en ella.“

„Þegar mest á reyndi hélt velferðarkerfið velli og reyndist sannarlega vera það öryggisnet sem almenningur gat treyst á. Þótt vissulega hafi reynt á öll mörk velferðarkerfisins stóðst það prófið og sannaði sig í eitt skipti fyrir öll sem besta samfélagsskipulag sem til er. Því þakka ég ekki síst fólkinu sem starfar innan heilbrigðis-, mennta- og velferðarþjónustunnar sem þrátt fyrir mikið álag stóð sína vakt af alúð og auðmýkt.“

„Allt tal um niðurskurð til opinberra mála mun alltaf skila sér í verri þjónustu, færra starfsfólki á vegum hins opinbera og um leið veikara velferðarkerfi. Þótt slíkar aðgerðir geti skilað bættum hagtölum til skamms tíma mun það alltaf kosta okkur meira til lengri tíma litið. Þess vegna hefur það sjaldan verið mikilvægara en nú að sína samstöðu og samtakamátt í verki til að verja velferðarkerfi Norðurlandanna,“ sagði Elín Björg ennfremur.

Auk Elínar Bjargar héldu þrír Íslendingar erindi á ráðstefnunni í dag þar sem sérstaklega var fjallað um fjármála- og efnahagskreppuna á Íslandi í norrænu samhengi. Þeir sem héldu erindi í dag voru Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata, Katrín Ólafsdóttir lektor við Háskólann í Reykjavík og Andri Snær Magnason rithöfundur.

Á morgun verður svo Marit Nybakk, forseti Norðurlandaráðs, með erindi en yfirskrift þess er „Tækifæri og áskoranir á óvissutímum 21. aldarinnar“. Erindi hennar verður á Hilton Reykjavík Nordica þriðjudaginn  27. ágúst. Síðar sama dag mun rithöfundurinn og blaðamaðurinn Lars Olsen flytja erindi um ójöfnuð og nærræna velferðarkerfið. Þar mun Lars Olsen segja frá rannsóknum sínum á auknu misrétti á Norðurlöndum, hvaða áhrif það hefur haft á öryggi íbúa landanna, pólitískar afleiðingar þessa og hvaða áhrif þetta hefur á stefnumótun stéttarfélaga á Norðurlöndum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?