Formaður BSRB fjallaði um jafnréttismál í New York

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB (þriðja frá hægri), var einn frummælenda á viðburði um stöðu kvenna og jafnréttismál.

Kvennahreyfingin á Íslandi, kvennafríið, fæðingarorlof og jafnlaunastaðallinn voru meðal þess sem Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, fjallaði um á viðburði tengdum 63. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í síðustu viku.

Í viðburðinum var fjallað um stöðu kvenna og jafnréttismál og deildu þátttakendur dæmum frá sínum heimalöndum. Rúmenía fer með formennsku í Evrópusambandinu á árinu 2019 og fjallaði þeirra fulltrúi um þeirra áherslu á kynjajafnrétti, fyrst og fremst í tengslum við kynbundið ofbeldi. Þá fjallaði Sendiherra Sierra Leone gagnvart SÞ um mikilvægi þess að karlmenn tækju þátt í jafnréttisstarfi. 

Sonja talaði um kvennahreyfinguna á Íslandi, kvennafrí og mikilvægi aktívisma kvenna í þeim árangri sem Ísland hefur náð í jafnréttismálum. Hún fór einnig yfir hvernig fæðingarorlofið hafði áhrif á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og mikilvægi þess að karlar taki fæðingarorlof til jafns við konur. 

Þátttakendur í viðburðinum höfðu einnig mikinn áhuga á að heyra um upptöku jafnlaunastaðalsins og fór Sonja yfir aðdraganda þess að hann var tekinn upp og hvaða áhrif hann hefur haft.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?