Formaður BSRB: Niðurskurður eða niðurrif?

Uppsagnir rúmlega fimmtungs starfsmanna Ríkisútvarpsins  hafa eðlilega vakið upp hörð viðbrögð. Aðgerðir gærdagsins eru aðeins nýjasta viðbótin við fjölda uppsagna innan almannaþjónustunnar. Nýverið var fjölda opinberra starfsmanna sagt upp störfum, t.d. hjá Sérstökum saksóknara og Vinnumálastofnun. Ástandið í heilbrigðisþjónustunni þekkja allir.

Svar menntamálaráðherra við uppsögnunum á Rúv í gær veldur mér hvað mestu hugarangri. Ráðherra segir niðurskurðinn aðeins vera í takti við annan niðurskurð í opinberum rekstri. Það er erfitt að réttlæta að hér sé um niðurskurðaraðgerðir að ræða. Nær væri að kalla aðgerðirnar niðurrif. Miðað við stöðuna eins og hún birtist okkur núna er þessum stofnunum ómögulegt að standa undir lögboðnum hlutverkum sínum.

Maður spyr sig þess vegna óhjákvæmilega að því hvort þetta sé það sem koma skal? Megum við eiga von á því að fjöldi stofnanna og opinberra fyrirtækja þurfi að segja upp allt að fimmtungi starfsmanna sinna? Er það stefna stjórnvalda að hola stofnanir svo mikið að innan að starfsemi þeirra verður framvegis í mýflugumynd þannig að þegar fram líður sé auðveldara að réttlæta einkavæðingu þeirra eða hreinlega að leggja þær niður?

Kröfur um sparnað eru vel skiljanlegar á erfiðum tímum. En það niðurrif sem nú hefur átt sér stað hjá bæði Ríkisútvarpinu og Vinnumálastofnun munu til lengri tíma er litið alltaf koma til með kosta meira en sparnaðurinn sem á að ná fram.

Almannaþjónustan og jafnt aðgengi allra að henni er grunnur þess samfélag sem við búum í. Sú hugsjón er lykilinn að þeirri samfélagsgerð við höfum reist. Frekari niðurskurður á almannaþjónustu mun alltaf auka ójöfnuð og þannig samfélag viljum við ekki. Við okkur blasir dapurleg framtíðarsýn.

Brátt fer fjárlagafrumvarpið til annarrar umræðu. Við afgreiðslu þess verða þingmenn að horfa lengra fram á veginn en til næsta fjárlagaárs. Að verja fjármunum í velferð er arðbær fjárfesting. Þingheimur verður að átta sig á þessu og gera sitt til að bjóða landsmönnum upp á bjartari framtíðarsýn.

 

                                                                                                                  Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?