Formaður BSRB: Vilja breyta skerðingarmörkum barnabóta

Formaður BSRB segir í samtali við Ríkisútvarpið að eðlilegt væri að breyta fyrirkomulagi barnabóta þannig að skerðingarmörkum þeirra verði breytt svo fleiri fái notið fullra bóta. BSRB hefur lýst yfir ánægju sinni með að hækka eigi barnabæturnar en hefur jafnframt bent á að breyta þurfi skerðingarhlutfallinu.

Í frétt Ríkisútvarpsins segir að „hækkun barnabóta verði þannig að fjárhæð bótanna hækki um þrettán prósent auk 2,5 prósenta verðlagsuppfærslu. Þeir sem hafa laun umfram 200 þúsund krónur á mánuði fá skertar bætur. Sú skerðing eykst, þannig að laun umfram 200 þúsund skerða bætur með einu barni nú um fjögur prósent í stað þriggja prósenta áður.

Skerðing á bótum til foreldra tveggja barna eykst úr fimm prósentum í sex og þegar börnin eru orðin þrjú eða fleiri eykst skerðingin úr sjö prósentum í átta. Tekjutengdar bætur með börnum yngri en sjö ára hækka úr hundrað þúsund krónum í tæpar hundrað og sextán þúsund, samkvæmt frumvarpinu. Núna er það þannig að reiknaðar barnabætur sem eru undir tvö þúsund krónum falla niður, en verði frumvarpið að lögum falla niður allar bætur undir fimm þúsund krónum. 

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, fagnar því að bætur hækki um þrettán prósent. Hins vegar sé slæmt að bætur byrji að skerðast við tvö hundruð þúsund króna mörkin. „Mér finnst það auðvitað bara ótækt að það skuli vera stillt þannig að þeir sem eru á lágmarkslaunum og undir lágmarkslaunum, eins og þarna er verið að gera ráð fyrir, þannig að allir sem eru á vinnumarkaði eru að fá skerðingu á barnabótum,“ segir Elín Björg.“

Fréttina af vef Ríkisútvarpsins má sjá hér í heild sinni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?